Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 134
133
undirbyggðar af trúarlegri heimsmynd, samfélagsformgerð sem litlum
breytingum tók kynslóða á milli, og grímulausri valdbeitingu. Flóknari
samfélagsgerð, borgarvæðingu, fjárhagslegu sjálfstæði kvenna og kvenfrels-
isorðræðu þurfti að mæta með annarri tegund af hugmyndafræði.79 Hér
skiptir jafnframt máli að frá og með iðnbyltingunni óx vísindalegri orðræðu
ásmegin þar til þungi hennar var til jafns á við trúarlegar kennisetningar, og
hafði jafnvel náð yfirhöndinni á átjándu og nítjándu öld.80 Eins og Foucault
bendir á tók það hartnær tvær aldir að „fínstilla“ nýja þekkingarorðræðu en
þegar það tókst var árangurinn líka eftirtektarverður.
79 Hér er rétt að nefna að Foucault var allnokkuð uppsigað við hugmyndafræði-hug-
takið og kaus að nota hugtakið „orðræða“ þess í stað, og fella valdahugtakið inn í
það, en hann lagði áherslu á dreifingu og sundurleitni valdsins frekar en að túlka
ríkið, svo dæmi sé tekið, sem heildstæða birtingarmynd þess. Stundum er aðgrein-
ing að þessum hætti milli hugmyndafræði og orðræðu gagnleg en ekki nægilega
oft að mínu mati til að henni sé fylgt nema undir tilteknum kringumstæðum,
einkum ef stuðst er við skilning strúktúralísks marxisma á hugmyndafræðihug-
takinu. Eitt mikilvægasta framlag strúktúralísks marxisma til hugmyndafræðirýni
í þessu samhengi er að færa hugtakið af sviði ranghugmynda annars vegar og svo
hins vegar stýritækja sem notuð eru af skýrt afmörkuðum hagsmunaöflum. Þess í
stað er leitast við að skilja hugmyndafræði sem merkingarskapandi afl sem skilyrðir
tilverumöguleika og sjálfsskilning hugverunnar með altækum hætti, en tekur sér
þó aldrei bólstað í vitundinni sem meðvitað viðhorf. Þetta þýðir vitanlega ekki að
hugmyndafræði sé ekki stjórntæki heldur að eðli þess er flóknara en svo að það
verði skýrt eða afhjúpað með „sannleikanum“ eða með því varpa hulunni af samsæri
(presta, fyrirtækja, stjórnmálaflokka). Sjá hér Louis Althusser, „Hugmyndafræði
og hugmyndafræðileg stjórntæki ríkisins (rannsóknarpunktar)“, Af marxisma, ritstj.
Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson, Reykjavík: nýhil, 2009, bls.
175–228.
80 Árið 1930 þýddi Laxnes fyrir Almanak alþýðu grein Bertands Russells, „Hafa trúar-
brögðin lagt gagnlegan skerf til menningarinnar?“ Þar kemur m.a. fram sú skoðun
að lakasti þátturinn í kristinni trú sé afstaða hennar gagnvart kynferðismálum,
„afstaða, sem svo er óheilbrigð og ranghverf, að hún verður ekki skilin nema með
hliðsjón af sjúkdómsástandi hins siðaða heims á hnignunartímabili rómverska
keisaradæmisins. Vér rekumst stundum á þá skoðun, að kristindómurinn hafi bætt
aðstöðu konunnar, en þetta er einhver ósvífnasti sagnfræðilegur útúrsnúningur, sem
hægt er að drýgja. Konur geta ekki fagnað sæmilegri aðstöðu í þjóðfélagi, þar sem
lögð er á það höfuðáherzla, að þær brjóti ekki í bága við rígskorðaðar, siðferðilegar
lagasetningar. Munkar hafa alt af í fyrsta lagi litið á konuna sem freistarann; þeir
hafa aðallega skoðað hana sem vekjara óhreinna girnda. [...] Kirkjan reynir að gera
holdlegan losta óskaðlegan með því að kvía hann inni í viðjum hjónabandsins.“
Bertrand Russel[l], „Hafa trúarbrögðin lagt gagnlegan skerf til menningarinnar?“,
þýð. Halldór Kiljan Laxness, Almanak alþýðu, 1. janúar 1930, bls. 45–75. Sjá einnig
Bertrand Russell, Has Religion Made Useful Contributions to Civilization?, London:
Watts & Co, 1930.
LEGoFSI oG HJÓnABAnDSMAS