Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 179
178
En er þá ekki hægt að þjálfa þetta máleyra á svipaðan hátt og brag-
eyrað? Jú, áreiðanlega á máltökuskeiði og eitthvað frameftir aldri. En það
verður ekki gert með leiðbeiningum og leiðréttingum af því tagi sem lýst
var í 4. kafla. Ef við gefum okkur að málkunnátta, og máleyra, barna og
unglinga mótist af því sem er fyrir þeim haft, skiptir áreiðanlega miklu
máli fyrir varðveislu áðurnefnds samhengis að fullorðnir tali mikið við
börnin, lesi fyrir þau og þau lesi mikið sjálf.
nú lýsa margir áhyggjum af því að börn og unglingar lesi minna af
góðum bókum en áður og þá er gjarna ýtt á skólana að stuðla að auknum
lestri nemenda. Þar er áreiðanlega oft unnið gott starf. Samt kom nýlega
í ljós í svokallaðri PISA-könnun að íslenskir grunnskólanemar standa ekki
vel að vígi í lesskilningi og strákar verr en stelpur. Eftir því sem skólamenn
segja stafar þetta ekki af því að nemendurnir séu ekki læsir í hefðbundinni
merkingu þess orðs. Það hefur sem sé ekki farist fyrir að kenna þeim að
lesa. Þeir skilja bara ekki textann. Það stafar sjálfsagt að hluta til af því að
þeir hafa ekki mikinn orðaforða og hafa ekki lesið mikið.
En það er til ákaflega einföld aðferð sem ég held að geti stuðlað að því
að þjálfa máleyra nemenda, viðhalda samhenginu margnefnda, auka orða-
forða barna og unglinga og efla þannig lesskilning þeirra og þjálfa þau um
leið í ritun og málnotkun. Það eru endursagnir. Þegar ég var í grunnskóla
vorum við látin skrifa endursögn aðra hverja viku og ritgerð hina. Þessar
endursagnir fóru þannig fram að kennarinn las stutta sögu, oft þjóðsögu,
einhvers konar skemmtisögu eða frásögn. Við sátum og hlustuðum og ein-
beittum okkur að því að ná aðalatriðunum í sögunni eða frásögninni. Að
lestrinum loknum áttum við síðan að skrifa söguna upp aftur eftir minni, á
skipulegan hátt og á viðeigandi máli.
ég hef ekki orðið var við að þessi ritþjálfunaraðferð hafi verið mikið
notuð í íslenskum skólum undanfarna áratugi. ég veit ekki hvenær eða
hvers vegna hún datt úr tísku, en um hana segir Einar Magnússon mennta-
skólakennari m.a. svo í blaðagrein árið 1957:41
Endursagnir held ég, að séu nú mjög lítið stundaðar, þó að eitthvað
kunni að vera gert af þeim hjá einstöku kennara, og ritgerðir eru
víða oft allt of fáar ár hvert. Erfitt er líka að finna ritgerðarefni, sem
nemendurnir hafa nokkurn áhuga eða vit á. Hæfileikinn til að skrifa
á ákveðinni stundu um eitthvert tiltekið efni er líka misjafn og lítill
41 Einar Magnússon, „Móðurmálskennslan í íslenzkum skólum. Síðari hluti“, Alþýðu-
blaðið 10. febrúar, 1957, bls. 5 og 7 (hér bls. 5).
HöSkulduR ÞRáinSSon