Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 148
147
Svo óbærilegt raunar að sú stund kann að renna upp, og fyrr en okkur
grunar, að „við hljótum að fagna dauðanum sem kærkomnum lausnara“.120
Hér hefur járnbúr Webers umbreyst í klefann þar sem fangi bíður aftöku
sinnar.
Þegar litið er til gagnrýni tuttugustu aldar hugvísindamanna á valda-
formgerðir nútímans og einstrengingslega tækni- og rökhyggju, allt frá
Frankfurtarskólanum til póststrúktúralismans, eru spor menningarrýni
Webers ekki síður skýr en sálgreiningarinnar. Hafa verður þó í huga að sú
aðþrengda hugvera sem oftast er fjallað um innan þessarar orðræðuhefðar
er karlmiðuð, og bundin við reynsluheim karla. Sú spurning hlýtur því að
vakna hvort umfang og virkni samfélagslegrar stýringar, valdbeitingar og
hugmyndafræðilegrar innrætingar, svo ekki sé minnst á stofnanaviðhorf
og opinber stefnumál, séu ekki önnur í tilviki karla en kvenna, þótt ekki
væri nema vegna þess að karlmenn halda um valdataumana í samfélaginu
og sníða þannig í vissum skilningi reglurnar að sjálfum sér (jafnvel þótt
yfirsýn yfir „kerfið“ í heild sé ómöguleg).
Svarið er, að sjálfsögðu, jú. Ef karlmaðurinn, sá sem heldur um valda-
tauma samfélagsins, er engu að síður undirseldur gerræðislegu og ómann-
eskjulegu kerfi og hugmyndafræðilegu valdi á hátt sem réttlætir „járnbúrs“-
líkinguna, má ætla að ofríkið sem konur hafa mátt þola og mega enn sé
jafnvel óbærilegt.121 Kenningakerfi Freuds er þekkt fyrir karllæga slagsíðu
og vitað er að sálgreiningin átti framanaf í stökustu vandræðum með sálar-
líf og þroskaferli stúlkna og kvenna. Flestar þekktustu sjúkrasögur Freuds
eru þó af konum og flestir sjúklingar hans voru kvenkyns, nokkuð sem er í
samræmi við hans eigin niðurstöður. Frekar en að „sjúkleg vergirni“ væri
móðursýkiseinkenni, svo dæmi sé nefnt, og lýsti sér í látlausri kynlífsiðju,
120 Sama rit, bls. 33.
121 Jafnvel mætti halda því fram að aðstaða kvenna kalli á nýja myndlíkingu og er hér
stungið upp á sorppressugildrunni í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni sem kynjaðri
hliðstæðu við járnbúr Webers. Eins og lesendur muna tóku veggirnir á rusla-
geymslu Helstirnisins að færast saman með óvæntum en nokkuð hægfara hætti.
Engu að síður var allt útlit fyrir að Logi Geimgengill og félagar yrðu kramdir til
dauða. Sorppressuna má sjá sem kynjaða hliðstæðu við myndlíkingu Webers af
ýmsum ástæðum, en kannski ekki síst vegna þess að aðþrengt tilvistarumhverfi
þeirra, auk valdaójafnvægis, býr yfir bókstaflega banvænni hlið sem er augljós ef
tíðni ofbeldisglæpa gagnvart konum er skoðuð, sem og stofnanalegt umhverfi sem
Marilyn French hefur líkt við „stríð gegn konum“ í samnefndri bók sinni. Sjá The
War Against Women, new York: Summit Books, 1992. Hér mætti reyndar benda á
að í skáldsögu sinni Konum (2008) leitast Steinar Bragi við að skapa nýja tegund af
myndmáli til að fanga stöðu kvenna í nútímanum.
LEGoFSI oG HJÓnABAnDSMAS