Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 78
77
reynslu af verkum Svavars felst í því að hreyfa sig að og frá verkunum.
Hluti ánægjunnar er því fólginn í rýmislegri reynslu sem áhorfandinn
deilir með málaranum. Slík skörun er raunar eitt megininntakið í sam-
tímamyndlist og í safnastarfi; í gjörningalist, innsetningum og vensla- og
þátttökulist sem leggur áherslu á þátttöku áhorfandans í gagnvirkri merk-
ingarsköpun myndlistar.41
Texti Thors varpar ljósi á það sem Butler bendir á, að sé staðið nálægt
yfirborði myndarinnar megi njóta tækninnar, hvernig málningin hefur
verið meðhöndluð og hún lögð á flötinn – og njóta þannig verkanna sem
nokkurs konar „performansa“ og í tilfinningu fyrir hönd málarans. Butler
segir enn fremur að sé staðið fjær verkinu megi ná „mímetískum“ skilningi
og átta sig á skírskotunum til raunveruleikans.42 Í eftirfarandi texta Thors
má glöggt sjá hvernig skírskotun til „myndefnis“ eða merkingar sem teng-
ist náttúrufyrirbærum rennur saman við lestur á málaratækninni:
Hann týndi ekki veganesti sveitamannsins úr jökulheimum. Hann
tekur á krít í hvert sinn einsog hann sé að prófa hana í fyrsta sinn,
hvað gerist ef þú teygir þennan lit inn á lendur hins, blástrikar yfir
strjált með hnitmiðuðum hlykkjum, urgar svo svörtu skáfleytt niður
undan þeim spunafláa, og kemur þar í gulum depli og grænum tægj-
um úr mosató minningar, og ferð með rauðum strokum yfir mynd-
brún ofan í bláeggjar, og bindur grunninn blástrokum sem seilast
upp í svarta krítarþykknið.43
Thor spinnur hér frásögn óræðra landslagsvísana, eða eins konar litræna
atburðarás með „grænum tægjum úr mosató“ um „bláeggjar“ og „upp í
41 Hér er vert að benda á ummæli listamannsins Mörthu Roslers um þekkta grein
Michael Fried „Art and objecthood“ sem birtist í listtímaritinu Artforum 1967:
„I read Fried’s essay ... which was a sort of terribly starchy defence of high Mod-
ernism, and he spoke of the problem of art that did not follow these modernist
precepts as being ‘theater’. And I said ‘bingo, that’s it, that’s right’. The art that’s
important now is a form of theater, and one thing that means is that it has to be in
the same space as the viewer“. Martha Rosler: Viðtal 24. nóv. 1991, tilvitnun sótt
til Charles Harrisons, Modernism, bls. 75. Ummæli Roslers endurspegla fyrst og
fremst þrönga túlkun Frieds (og Greenbergs) á módernisma, fremur en að hina
„leikrænu“ merkingu hafi skort í módernískri myndlist.
42 Christopher Butler, Pleasure and the Arts. Enjoying Literature, Painting, and Music,
oxford: oxford University Press, 2005, bls. 134–137.
43 Thor Vilhjálmsson, Svavar Guðnason, bls. 39.
STAðInn Að VERKI