Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 218
217
þess sem gerir ferðina mögulega hverju sinni. Landslagið er þannig ekki
einvörðungu hið samfellda rými sem við þurfum að verða eitt með til að
ferð okkar hafi merkingu fyrir okkur. Hið samfellda rými mun ekki bjarga
okkur eins og Deleuze og Guattari minntu á.35
Við getum stækkað heiminn með meðvitund um hið samfellda rými,
með því að leyfa þrá okkar að leika lausum hala. En nýjar hugmyndir
og skynhrif, upplifun og verðandi verða ekki til í litbrigðum, formum
og römmum landslagsins, þær eru litbrigðin, formið og ramminn.36 Við
sköpum sápukúlu þegar við römmum inn landslag. Formið þar og þá er
rákað í tilefni hverrar ferðar og við verðum eitt með þeirri ferð, því formi.
Að skynja er þannig hreyfiafl, það er hvorki innra með okkur né dregið af
því sem við snertum eða skynjum á einhvern hátt utan við okkur. Þetta er
hreyfiafl sem gerir heiminn annan á morgun en í dag, gjörningur (e. per-
formance) hverju sinni.
Rannsóknir á landslagi
Sú verufræðilega einhyggja, sem við leggjum til og höfum skýrt með rák-
uðu og samfelldu rými, grannfræði og sápukúlum, leggur áherslu á skipun.
Þegar skilja skal landslag sem viðfang ferðamennsku er leitast við að gera
grein fyrir því hvernig afli er beitt gegnum skipun – hvernig það verður
til í þeirri mynd sem við þekkjum gegnum aðgerðir skipunar. Í öðru lagi
er áherslan á hið efnislega og hlutverk þess í skipuninni. Það er ekki gerð-
ur greinarmunur á mannlegri hæfni til athafna og getu annarra hluta til
athafna. Litið er á gerendahæfni alls sem viðkemur skilningi sem afurð
tengsla. Mjög margvíslegir og sundurleitir gerendur geta tekið þátt í að
skapa þessi tengsl, viðhalda þeim og móta þau37 – allt frá mælitækjum
landfræðinga sem teikna kortin fyrir ferðafólk til hugmynda um innhverfa
íhugun á hálendinu sem birtast í kynningarefni fyrirtækja sem sérhæfa sig í
andlegum ferðum eða heilunarferðum (e. spiritual tourism).
Þau tæki sem við getum beitt til að skilja ferðamennsku eru því fyrst
og fremst þjóðlýsingar (e. ethnography). Við getum fylgt eftir gerendum og
athöfnum þeirra og lýst því hvernig tilteknar birtingarmyndir landslags, til
dæmis, eru skapaðar og þeim viðhaldið. Þessa þræði má svo gera sýnilega
með stafrænni kortlagningu til að birta tengslasamsetningar eða gerenda-
35 Deleuze og Guattari, Mille plateaux, bls. 625.
36 Grosz, Chaos, Territory, Art.
37 Jamie Lorimer, „Multinatural geographies for the Anthropocene“, Progress in
Human Geography 5/2012, bls. 593–612, hér bls. 607.
YLRÆKT RÍSÓMATÍSKRA SPRoTA