Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 178
177
eftir Hönnu Óladóttur.39 ég vil hins vegar í lokin nefna eina aðferð sem
ég tel að myndi gefast vel í þessu sambandi og tengja hana við máltilfinn-
inguna.
5.2 Máltilfinning, máleyra og PISA-könnunin
Mér hefur orðið tíðrætt um hugtakið máltilfinning hér framar. Til frekari
skýringar gæti verið gagnlegt að grípa hér til samanburðar við aðra tilfinn-
ingu, þá tilfinningu sem oft er kennd við svonefnt brageyra.
Það er alkunna að sumir hafa brageyra, þ.e. tilfinningu fyrir því hvað
er „rétt kveðin vísa“, og sumir ekki. Það er hægt að lýsa þeim reglum sem
gilda um rétt kveðnar vísur og það er hægt að kynna mönnum þessar
reglur í skóla. Það er fróðlegt að átta sig á þeim og það er m.a.s. hægt að
kenna mönnum (a.m.k. sumum) þessar reglur að því marki að þeir geti,
með umhugsun og yfirlegu, sett saman rétt kveðna vísu þótt þeir hafi ekki
tilfinningu fyrir því, þ.e. þótt þeir hafi ekki brageyra. Þess vegna geta þeir
ekki mælt rétt kveðna vísu af munni fram og verið öruggir um að hún sé
rétt kveðin. Brageyrað öðlast menn nefnilega ekki af því að læra um regl-
urnar heldur af því að hlusta á nógu mikið af rétt kveðnum vísum á mót-
unarskeiði sínu. Þessu hefur Heimir Pálsson lýst á ágætan hátt í grein.40
Þessu er svipað farið með þá máltilfinningu sem ég var að lýsa hér
framar: Menn geta lært reglur um að sögnin langa eigi að taka þolfalls-
frumlag (en ekki þágufallsfrumlag) og sögnin hlakka til eigi að taka nefni-
fallsfrumlag (en ekki þolfallsfrumlag eða þágufallsfrumlag), þ.e. menn geta
lært þetta að því marki að þeir geti nýtt sér það ef þeir hafa tíma til að
hugsa um það og liggja yfir því, svo sem í rituðu máli. En þetta verður ekki
hluti af máltilfinningu þeirra með því móti, ekki hluti af hinni ómeðvituðu
málkunnáttu þeirra, ekki hluti af því máleyra sem þeir hafa. Þess vegna
geta þeir ekki nýtt sér þessar reglur í daglegu tali, jafnvel ekki þegar þeir
þurfa að standa upp og flytja formlegt ávarp blaðalaust.
39 Hanna Óladóttir, „Breytileiki í máli sem hluti af máluppeldi grunnskólanema. nám-
skrár, kennslubækur og veruleikinn í kennslustofunni“, Ráðstefnurit Netlu, Menn-
takvika 2010, Reykjavík: Menntavísindasvið Háskóla Íslands, 2010. [Aðgengilegt á
slóðinni http://netla.hi.is/menntakvika2010/011.pdf.]; Hanna Óladóttir, „Málfræði
handa unglingum. Lýsandi málfræði og forskriftarmálfræði“, Ráðstefnurit Netlu.
Menntakvika 2011, Reykjavík: Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Reykjavík, 2011.
[Aðgengilegt á slóðinni http://netla.hi.is/menntakvika2011/alm/003.pdf.]
40 Heimir Pálsson, „Þegar ljóðlist og tónlist greinir á“, Hugðarefni. Afmæliskveðjur til
Njarðar P. Njarðvík 30. júní 2006, ritstj. Hjörtur Pálsson, Vésteinn Ólason, Vigdís
Finnbogadóttir og Þórður Helgason, Reykjavík: JPV útgáfa, 2006, bls. 38–57.
MÁLVERnD, MÁLTAKA, MÁLEYRA – oG PISA-KönnUnIn