Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 156
155
(1) a. Það má lýsa verulegum hluta máltökunnar þannig að börn séu að
tileinka sér „reglur“ (misjafnlega almennar að vísu).5
b. Börn á máltökuskeiði tileinka sér málið að langmestu leyti án
beinnar tilsagnar, þ.e. af því að það er „fyrir þeim haft“ en ekki af
því að þeim sé beinlínis kennt það.6
Með fyrra atriðinu er átt við það að börn læra t.d. ekki fleirtölu nafnorða
eða beygingu sagna „orð fyrir orð“ heldur tileinka þau sér reglur um þessi
atriði (nema auðvitað þegar tiltekin orð beygjast óreglulega). Þau læra
m.a. að kvenkynsorð sem enda á -a í nf.et. enda á -ur í nf.ft. (sbr. dúkka,
kerra, húfa ..., ft. dúkkur, kerrur, húfur). Enginn segir þeim þetta — þau
tileinka sér þessa kunnáttu án tilsagnar. En hún gerir þeim kleift að mynda
fleirtölu af nýjum orðum af sama tagi.7 Eins átta þau sig fljótlega á því að
það er hægt að búa til 3.p.ft. af sögnum með því að bæta -um aftan á stofn-
inn. Þar með geta þau ekki bara sagt komum heldur líka hoppum, hlaupum
o.s.frv.8 En þessi „reglutileinkun“ á auðvitað ekki bara við um beyging-
ar heldur líka um setningagerð. Í íslensku gilda t.d. þær reglur að hafa
persónubeygðu sögnina yfirleitt í öðru sæti í setningum hvort sem það er
frumlagið eða einhver annar liður sem fer á undan, setja hana í fyrsta sæti í
beinum já/nei-spurningum, hafa frumlag setningar í nefnifalli nema þegar
tiltekinn merkingarflokkur sagna á í hlut, mynda þolmynd þannig að
frumlagið samsvari andlagi viðkomandi sagnar í germynd og sé í nefnifalli
ef andlagið í germyndinni er í þolfalli en annars ekki o.s.frv. Hér eru sýnd
nokkur dæmi til að skýra hvað átt er við, en um flest af þessu má fræðast
nánar í ýmsum skrifum um íslenska setningagerð.9
5 Athugið að hér er verið að tala um þann regluleika sem verður til í máli barna á
máltökuskeiði, ekki það hvort málfræðingum þyki skynsamlegt að lýsa þessum
einkennum með formlegum reglum eða hömlum af tiltekinn gerð.
6 Sjá t.d. Sigríði Sigurjónsdóttur, „Máltaka barna og meðfæddur málhæfileiki“.
7 Það hefur reyndar verið rannsakað sérstaklega í íslensku: Indriði Gíslason, Sigurð-
ur Konráðsson og Benedikt Jóhannesson, Framburður og myndun fleirtölu hjá 200
íslenskum börnum við fjögra og sex ára aldur, Reykjavík: Rit Kennaraháskóla Íslands,
A-flokkur. Rannsóknarritgerðir og skýrslur, 1986; Ásta Svavarsdóttir, Beygingakerfi
nafnorða í nútímaíslensku, Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands, 1993.
[Upphaflega kandídatsritgerð höfundar 1987.] Í þessum ritum er vísað til fleiri
rannsókna.
8 ég held m.a.s. að ég hafi verið viðstaddur þegar dótturdóttir mín gerði þessa upp-
götvun og fór að nota ýmsar sagnir í 3.p.et. eftir mynstrinu komum. Hún þurfti
enga tilsögn frá mér til þess að ná tökum á þessu.
9 Sjá t.d. Höskuld Þráinsson, Setningar... Þar er vísað í fjölmörg rit sem fjalla um
atriði af þessu tagi.
MÁLVERnD, MÁLTAKA, MÁLEYRA – oG PISA-KönnUnIn