Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Blaðsíða 159
158
a.m.k. ekki getið í Íslenskri orðabók að rústa geti tekið þágufallsandlag. En í
nýlegri könnun á fallstjórn þessarar sagnar virðist mikill meirihluti þeirra
sem eru undir sextugu nota þessa sögn með þágufallsandlagi.15
Eins og flestir vita er oft amast við tilbrigðum í máli í skólakennslu,
orðabókum, handbókum og málfarspistlum af ýmsu tagi. Þó er býsna löng
hefð fyrir því á Íslandi að láta þau tilbrigði í framburði afskiptalaus sem
menn telja að séu bundin við ákveðna landshluta. Sum dæmi um tilbrigði
í beygingu virðast líka hafa unnið sér nægilega hefð til þess að við þeim er
ekki amast, en önnur ekki. Kannski er umburðarlyndi okkar þó minnst
gagnvart ýmsum tilbrigðum sem varða setningagerð. En öll tilbrigði eiga
rætur sínar að rekja til einhvers sem hefur verið nýjung á sínum tíma, e.t.v.
röng alhæfing barns á máltökuskeiði á einhvers konar reglu, líkt og rakið
var í 2. kafla hér á undan. Sú hugmynd að slíkar nýjungar séu óæskilegar
og það beri að sporna gegn þeim hvílir á þeirri meginstefnu að það sé
brýnt að varðveita „samhengið“ í málinu eða málsögunni, eins og lýst var
í 1. kafla. Í næsta kafla mun ég hins vegar halda því fram að við notum oft,
eða líklega oftast, rangar aðferðir til þess að freista þess að varðveita þetta
samhengi, aðferðir sem eru dæmdar til að mistakast, eins og áður var sagt.
4. Málkunnátta og gagnslausar leiðréttingar, jafnvel skaðlegar
4.1 Inngangur
Eins og rakið var í 2. kafla sýna rannsóknir að málkunnátta okkar verður
í aðalatriðum þannig til að við búum okkur til reglur eða alhæfingar á
grundvelli þeirra málgagna sem við höfum aðgang að, þ.e. á grundvelli
málsins sem er „fyrir okkur haft“. Málkunnáttan er þannig reglubundin
að langmestu leyti, þótt við getum líka tileinkað okkur ýmislegt sem er
óreglulegt, svo sem beygingu óreglulegra sagna (sterkra sagna). Það er
t.d. ekkert í grunnformi (eða nafnhætti) sagnanna bauka og auka í nútíma-
máli sem getur gefið okkur vísbendingu um að sú fyrri beygist reglulega í
samræmi við það sem meirihluti veikra sagna gerir (bauka – baukaði – bauk-
að) en sú síðari óreglulega (auka – jók – aukið). Flest börn læra samt þessa
óreglulegu beygingu sagnarinnar auka, en líklegt verður að telja að hún
muni eiga undir högg að sækja í framtíðinni.16
15 Höskuldur Þráinsson, Þórhallur Eyþórsson, Ásta Svavarsdóttir og Þórunn Blöndal,
„Fallmörkun“, Tilbrigði í íslenskri setningagerð II, 7. kafli.
16 Reyndar má finna dæmi um þátíðina aukaði á netinu þótt áðurnefnd Beygingar-
HöSkulduR ÞRáinSSon