Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 13
12
greina það sem kalla má „andstæðumódelið“.9 Samkvæmt því er nútíma-
væðingu og fortíðarhyggju stillt upp sem algildum andstæðum sem skil-
yrða alla orðræðu tímabilsins. Innan þess ramma hafa verk Ágústs gjarnan
verið túlkuð sem skýr dæmi um fortíðarhyggju sem einkenndist af menn-
ingarlegri íhaldssemi, þjóðernishyggju og andófi gegn bæði nútímavæð-
ingu og alþjóðahyggju, þar sem hefðbundinni sveitamenningu var hamp-
að á kostnað þess samfélags sem var að mótast í Reykjavík og má kenna
við borgarvæðingu og nútíma. Staðreyndin er hinsvegar sú að íhaldssemi
og nútímavæðing voru alls ekki ósamrýmanlegar andstæður heldur miklu
frekar jafngildir þættir sem voru m.a. ofnir saman í verkum opinberra
menntamanna á borð við Ágúst. Frá því sjónarhorni má skoða verk þeirra
sem viðleitni til menningarlegra umbóta og tilraun til að móta samfélag
og sjálfsveru íbúa landsins. Í því sambandi hefur Ólafur Rastrick bent á að
líta megi á „skrif opinberra menntamanna sem leiðbeinandi um hugsun og
hegðun og þá um leið sem áhrifavald, valdatæki til að stýra einstaklingum
inn á tilteknar brautir í menningarlegum og siðferðilegum tilgangi“.10
Í ljósi þessa er forvitnilegt að rannsaka nánar hvað einkenndi ritstjórn-
arstefnu Iðunnar í ritstjórnartíð Ágústs H. Bjarnasonar. Fyrrnefnd ræða
Ágústs, „Landið kallar“, hefur oft og tíðum verið látin standa sem dæmi
um þær áherslur sem einkenndu tímaritið og viðhorf höfundarins enda
þótt hún hafi birst á síðum þess tveimur árum eftir að Ágúst seldi Magnúsi
Jónssyni (1887–1958) tímaritið. Spurningunni um hvers konar efni Ágúst
sjálfur kaus að koma á framfæri við lesendur Iðunnar, á hvaða forsendum
og hvernig ritstjórnarstefna hans tengdist heimspeki hans hefur fram að
þessu ekki notið nægjanlegrar athygli. Með því að beina sjónum okkar að
slíkum spurningum verður mögulegt að draga fram fjölbreyttari þætti en
t.a.m. andstæðumódelið svokallaða býður uppá.
„Besta og fjölbreyttasta tímarit landsmanna“
Ágúst ákvað að endurvekja tímaritið Iðunni árið 1915 í félagi við Einar H.
Kvaran (1859–1938) og tengdaföður sinn, Jón Ólafsson (1859–1916) sem
hafði gefið út tímarit með því nafni á árunum 1884–89 með þeim Birni
Jónssyni (1846–1912) og Steingrími Thorsteinssyni (1831–1913). Svo
virðist sem hugur Ágústs hafi staðið til tímaritsútgáfu um nokkurt skeið.
9 Ólafur Rastrick, Háborgin. Menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu aldar,
Reykjavík: Háskólaútgáfan – Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2013, bls. 83.
10 Sama rit, bls. 86.
Jakob GuðmunduR RúnaRsson