Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 117
116
Á seinni hluta 19. aldar og allt fram á okkar daga má stundum sjá ritdóm-
ara sneiða algjörlega hjá vísindalegum aðferðum eða orðfæri og vísunum
til fræða, svo úr verður léttur rabbstíll. Eitt dæmi eru ritdómar Torfhildar
Hólm í Dvöl á árunum 1905-1917, en þeir bera mörg einkenni sem áttu
eftir að verða aðalsmerki dægurmiðla; eru stuttir og gjarnan á almennum
nótum (ein bók er til dæmis sögð fjörug, áhrifamikil og fróðleg3 en önnur
innihalda „skemtilegar, fræðandi og heilnæmar“ sögur4). Jafn algengt er
þó að í ritdómum í anda léttari dægurblaðamennsku megi sjá tungutak eða
framsetningu sem gefa ritdómum vísindalegt yfirbragð, sem og viðleitni
til að rökstyðja dóma með vísunum í fræðilegar kenningar og umræðu.
Jafnvel Jón Ólafsson, sem frægur var fyrir yfirlýsingagleði og sleggjudóma
í blaðamennsku sinni á áratugunum í kringum aldamótin 1900, á það til að
setja sig í fræðilegar stellingar og útskýra fyrir lesendum helstu einkenni
raunsæisstefnunnar sem hann aðhyllist,5 án þess þó að víkja frá aðgengi-
legum blaðastíl sínum.
Samspil og togstreita fræðanna og hins alþýðlega verður nokkuð áber-
andi í ritdómum og umræðu um ritdóma á 20. öld. Bókmenntaumfjöllun
einkennist þá af auknum vísindalegum áherslum og viðbrögðin verða oft
tortryggni í garð fræðanna sem andstæðu alþýðlegrar bókaumræðu sem
tengd er náttúrulegu og eðlilegu sambandi lesanda og bókar. Andstaðan
við fræðin og upphafning hins alþýðlega tengist ekki síst ríkjandi, þjóð-
ernislegum áherslum, sérstaklega á fyrri hluta aldarinnar. Hér verður þessi
togstreita hins vegar fyrst og fremst lesin í ljósi þess að ritdómar eru svæði
þar sem hefðbundnar andstæður mætast,6 með hliðsjón af þeirri tilhneig-
ingu að stilla tilfinningum, hjartanu og listinni upp sem andstæðu rök-
hugsunar, fræða og vísinda. Vaxandi áherslu á vísindi og tækniþróun var
oft mætt með því að stilla listinni upp sem kjarna hins mannlega, þess
sem tengir okkur saman og manninn við náttúruna, en vísindin og tæknin
voru álitin fjarlægja okkur náttúrunni, stuðla að firringu og því að mað-
urinn ofmetnist. Hugmyndin um brjálaða vísindamanninn fær í raun sína
3 „Bók send Dvöl“, ritdómur um Alfreð Dreyfus eftir Viktor von Falk í þýðingu Hall-
gríms Jónssonar og Sigurðar Jónssonar, Dvöl, desember 1905, bls 47.
4 „Bók send Dvöl“, ritdómur um Sögur frá Alhambra eftir Washington Irving í þýð-
ingu Benedikts Gröndals og Steingríms Thorsteinssonar, Dvöl, ágúst 1906, bls.
31–32, hér bls. 32.
5 J.Ó., „Bókmentir [„Verðandi“. – Niðurlag]“, ritdómur um Verðandi eftir Bertel E.
Ó. Þorleifsson, Einar Hjörleifsson, Gest Pálsson og Hannes Hafstein, Skuld, 22.
júlí 1882, bls. 69–70.
6 Um það fjallar óbirt doktorsritgerð mín um íslenska ritdóma.
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR