Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 64
63
Í verki sínu Paratexts heldur Gérard Genette því fram að skjaldarmerki
og einkunnarorð höfundar á verkum sem þessum megi sjá sem fyrirrenn-
ara tilvitnunar (e. epigraph) og gegni svipuðu hlutverki, m.a. að auka virð-
ingu höfundarins.85 Þó að í þessu tilviki sé það skjaldarmerki þess sem
verkið er tileinkað á forsíðunni er tilgangurinn sá sami. Ef tilvitnun sem
tekin er frá virtum höfundi myndar tengsl milli verka höfundanna tveggja,
þá hlýtur skjaldarmerki þess sem verk er tileinkað að sama skapi að tengja
höfundinn og hann. Jafnvel mætti segja að skjaldarmerkið tengi þá enn
nánar en tileinkunin sjálf (ekki síst vegna þess að það var ekki óheyrt að
verk væru tileinkuð einhverjum í óþökk hans). Birting skjaldarmerkisins
leggur því áherslu á að Painter var að öllum líkindum ekki að sækjast eftir
verndara heldur að auglýsa að hann hafði þegar öðlast vernd mikilvægs og
valdamikils manns. Skjaldarmerki Warwicks var í raun mjög við hæfi á for-
síðunni í ljósi þess að verkið er nátengt hirðinni og riddaramennsku. Bein
þýðing einkunnarorðanna „Skömm til þess sem illt hugsar“ mætti einnig
lesa sem hluta af varnarviðbrögðum Painters við gagnrýnendum og þeim
sem óskuðu honum og verki hans þegjandi þörfina.
Þessar aðferðir komu eins og fyrr segir ekki algjörlega í veg fyrir gagn-
rýni, en þær virðast a.m.k. hafa dugað til að verkið öðlaðist vinsældir og
samþykki innan bókmenntakerfisins. Verkið bar með sér ýmsar hugmynd-
ir frá meginlandinu, t.d. um samskipti kynjanna og samband ráðamanna
við undirmenn sína, sem áttu eftir að verða kjarni þeirra endurritana sem
enskir höfundar unnu úr verkinu næstu áratugina á eftir. The Palace of
Pleasure átti eftir að falla í gleymsku, ekki síst vegna þess að fræðimenn
hafa verið tregir að viðurkenna margþætt hlutverk þýðinga í bókmennta-
sögunni. Áherslan hefur verið á að tengja saman þjóðarbókmenntir, eins
og t.d. ítalskar og enskar, án þess að viðurkenna hlutverk þýðinga í því
ferli, eða finna uppruna bókmennta innan hins þjóðlega bókmenntakerfis.
Rannsóknir á þýðingum eins og The Palace of Pleasure eru nauðsynlegar til
að rétta af þessa skekkju.
85 Gérard Genette, Paratexts: thresholds of interpretation, þýð. Jane E. Lewin, Cam-
bridge: Cambridge University Press, 1997, bls. 144, 58–59.
HÖLL ÁNÆGJU OG GAGNSEMI