Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 156
155
nýja strauma og stefnur í menningu og listum. Skrif Harðar Ágústssonar
um byggingarlist, sem birtust jafnt og þétt allt frá fyrsta hefti 1955 til ársins
1967, eru gott dæmi um þetta. Þau eru í senn inngangur að listgreininni og
ítarleg, gagnrýnin rannsókn á íslenskum byggingararfi. Hið sama má segja
um flest önnur skrif um listir; markmiðið var einkum að fræða fólk um ný
fagurfræðileg viðhorf. Þau endurspeglast vitanlega einnig í skáldskapnum
sem prentaður er í ritinu. Hann er undantekningarlítið módernískur, bæði
hinn frumsamdi og þýddi. En með fræðslusjónarmið að leiðarljósi virðist
sem Birtingsmenn hafi öðrum þræði viljað svara kröfum, sem oft heyrðust
á þessum árum, um að brúa þyrfti bilið á milli almennings og hinna nýju
bókmennta og lista.
Þegar efni fyrsta heftis Birtings yngri er skoðað má sjá að ritstjórarn-
ir reyna að fara bil beggja, kynna nýja strauma og höfða til hins almenna
smekks, ef svo má segja. Það vekur til dæmis athygli að fremst í heftinu – í
kjölfar ávarpsins þar sem sagt er að tímaritið sé vettvangur nýrra strauma – er
birt þýðing Halldórs Laxness á kvæði þýska rithöfundarins Bertolts Brechts,
„María Farrar“, en það var ort árið 1922. Þýðing Halldórs er í hefðbundnu
formi, líkt og frumgerðin, og ekki kröftug yfirlýsing um nýjungar í ljóðagerð
– og kannski á hún ekki að vera það. Í henni felst ef til vill fyrst og fremst
vinstripólitísk yfirlýsing; ljóðið boðar samúð með lítilmagnanum og samhjálp.
En þá verður samt að hafa í huga að Brecht hafði um miðjan sjötta áratuginn
ort mikið af ljóðum sem voru róttæk bæði í pólitískum og fagurfræðilegum
skilningi. Með því að birta þessa þýðingu eru Birtingsmenn kannski umfram
allt að kinka kolli til Halldórs – ef til vill í þakklætisskyni fyrir tímaritsnafn-
ið sem fengið er úr samnefndri þýðingu skáldsins á Candide eftir Voltaire.
Birtingur er um leið tengdur við menningarauðmagn Kiljans og hugsanlega
er þýðingin einnig birt til að mynda mótvægi við harkalegan dóm Einars
Braga aftarlega í heftinu um leikrit Halldórs, Silfurtúnglið, sem um þessar
mundir var sýnt í borginni (1/1955, 33–35). Strax á eftir dómi Einars Braga
er endurbirt efni úr Fjölni, tveir kaflar úr skrifum franska ábótans Lamennais
sem fjalla um undirokara þjóðanna (1/1955, 36–37). Birtingsmenn teygja sig
svo enn lengra í átt að ríkjandi ljóðasmekk aftast í ritinu þar sem þeir birta
„Vísur Fiðlu-Bjarnar“ sem ortar voru á sextándu öld.28 Segja má að birting
vísnanna sé í samræmi við það markmið tímaritsins, sem nefnt er í ávarpinu,
28 Tímaritið Líf og list hafði birt þessar sömu vísur Fiðlu-Bjarnar árið 1950. Hugs-
anlega eru Birtingsmenn með þessu að vísa til Lífs og listar sem var áhrifamikið
tímarit en ekki fagurfræðilega róttækt í sama skilningi og Birtingur. Sjá „Vísur
Fiðlu-Bjarnar“, Líf og list 2/1950, bls. 15.
MÓDERNÍSKA TÍMARITIÐ BIRTINGUR