Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 153
152
Því hefur lengi verið haldið fram að módernisminn hafi hafnað þeirri
menningu sem hinir fjöldaframleiddu miðlar sköpuðu. Mark S. Morrisson
andmælir þessu í bók sinni The Public Face of Modernism og færir rök fyrir
því að tilkoma módernisma í Bandaríkjunum og Bretlandi hafi beinlínis
byggt á aðferðum fjöldamenningarinnar, ekki aðeins við útgáfu tímarita
heldur einnig við kynningu þeirra og málstaðarins. Módernistar hafi verið
duglegir að nýta sér tæki og tól markaðarins, til dæmis með því að selja
auglýsingar í tímaritum sínum, auglýsa sjálfa sig og beita orðræðu mark-
aðarins. Tilgangurinn hafi verið að endurreisa almennings rýmið sem vett-
vang fyrir fagurfræðilega og hugmyndalega samræðu. Mýtan um að mark-
aðsöflin hafi raskað almenningsrýminu, sem Habermas gangi út frá sem
staðreynd, hafi orðið þeim góð viðspyrna í andróðrinum gegn yfirgangi
markaðsdrifinnar menningarstarfsemi (svo sem afþreyingartímaritanna) –
í viðleitni til að kynna og markaðssetja átak sitt um að nota módernískar
bókmenntir og listir til að endurskapa menninguna. Þessi viðleitni hafi
skapað and-rými (e. counterpublic spheres),19 svo sem í módernísku tímarit-
unum, þar sem ríkjandi orðræða innan almenningsrýmisins var gagn-
rýnd.20
into a Category of Bourgeois Society, Thomas Burger þýddi með aðstoð Frederick
Lawrence, Cambridge, Massachusetts: The MIT Press, 1989. (Á frummáli: Strukt-
urwandel der Öffentlicheit, 1962).
19 And-rými kann að þykja ónákvæm þýðing á enska hugtakinu „counterpublic
sphere“ en hún hefur þann kost að fela í sér orðið andrými sem er viðeigandi af því
að ætlunin var að búa til meira pláss, opna fyrir nýjum straumum.
20 Sjá Mark S. Morrisson, The Public Face of Modernism. Little Magazines, Audiences,
and Reception 1905–1920, Madison, Wisconsin: The University of Wisconsin
Press, 2001. Í inngangi ræðir Morrisson stuttlega gagnrýni sem sett hefur verið
fram á þróunarsöguna sem Habermas lýsir um mótun almenningsrýmis á átjándu
öld og hnignun þess á hinni tuttugustu (bls. 3–16). Habermas hefur til dæmis þótt
upphefja um of hið borgaralega almenningsrými í lok átjándu aldar, þar sem verka-
mannastéttir og konur voru útilokaðar. Áhersla hans á hnignun almenningsrýmisins
á nítjándu og tuttugustu öld þykir og byggja á fulleinstrengingslegum hugmyndum
um það hvernig almenningur tekur við því efni sem fjölmiðlar dreifa. Á undan-
förnum árum hafa fleiri beitt kenningu Habermas við rannsóknir á módernískum
tímaritum. Sjá til dæmis Ann L. Ardis, „Democracy and Modernism. The New Age
Under A. R. Orage (1907–22)“, The Oxford Critical and Cultural History of Mod-
ernist Magazines, I. b., bls. 205–225 og Jane Dowson, „Interventions in the Public
Sphere. Time and Tide (1920–30) and The Bermondsey Book (1923–30)“, sama rit, bls.
530–551. Almennt um kenningu Habermas, sjá Craig Calhoun (ritstj.), Habermas
and the Public Sphere, Cambridge, Massachusetts: The MIT Press, 1997. Í síðast-
nefnda ritinu og víðar svarar Habermas gagnrýni á kenninguna sem hann hefur
haldið áfram að þróa allan sinn starfsferil.
ÞRÖSTUR HELGASON