Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 121
120
og þurrs, stirðs, ónáttúrlegs gamal-setta ný-smíðis sumra Sérvitringa“.
Segist hann ætíð hafa stundað það „að giøra sérhvørjum auðskilið“ sitt
„ræðu-form“ og að „laga orðavalsins mátt og liðugleika samstemmandi
viðurkénndum sannrar málsnillis reglum snjallra þjóða“.17 Orðalagið er þó
kaldhæðnislegur vitnisburður um hið gagnstæða; hversu þunglamalegur
stíll hans sjálfs var. Setningarnar verða oft óþarflega flóknar og orðasam-
setning undarleg. Viðleitnin er þó til staðar og blaðamenn 19. aldar héldu
henni áfram, margir með mun liprari árangri.
Á fyrstu áratugum 20. aldar er þjóðernishyggjan í hámarki og í ritdóm-
um fræðimanna um vísindarit er megináhersla áfram lögð á alþýðleika.
Heimspekingurinn Björg C. Þorláksson skrifar til dæmis um heimspekirit-
ið Hug og heim eftir Guðmund Finnbogason árið 1913 og vegur og metur
kosti þess annars vegar sem aðgengilegs og upplýsandi alþýðurits og hins
vegar á vísindalegum forsendum. Segja má að Björg tengi saman vísinda-
lega nálgun og viðurkennda þjóðernisorðræðu þegar hún vísar til vinsællar
þjóðernislegrar mýtu um að Íslendingar séu fyrst og fremst sagnaþjóð,
en ekki heimspekilega sinnaðir, og gefur henni vísindalegt yfirbragð með
þeirri kenningu að „gáfnalagi okkar sé þannig háttað, að vér séum hneigðari
til að tína saman viðburðina, sem orðið hafa, og skrá setja þá, en að sökkva
oss niður í hugleiðingar um orsakir þeirra og afleiðingar, og því síður um
insta eðli og tilgang tilverunnar í heild sinni“.18 Í dómi um Drauma eftir
Hermann Jónasson vísar Björg á svipaðan hátt til þess að Íslendingar hafi
„frá alda öðli verið draumspakir, og tekið mjög mark á draumum“ en séu
eftirbátar annarra þjóða hvað varði vísindalegar rannsóknir á því sviði.19
Hún gerir því ráð fyrir því að gagnrýnin, vísindaleg hugsun komi að utan;
sé Íslendingum framandi afl sem hún þurfi að kynna.
Björg telur það verðugt markmið „að breyta skoðunum manna á heim-
spekinni og reyna að færa þeim heim sanninn um, að hún sé hvorki nein
grýla“ né „háfleyg skýjadís“, heldur „helzta aðstoð og hjálparhella allra
þeirra, er vilja reyna að brjóta hlutina til mergjar og skapa sér rökstuddar
skoðanir á tilverunni.“20 Hún leggur sitt lóð á vogarskálarnar með því
17 Magnús Stephensen, „Til lesaranna“, Skémtileg Vina-Gleði, 1/1797, bls. v–xii, hér
bls. viii.
18 Björg C. Þorláksson, ritdómur um Hug og heim eftir Guðmund Finnbogason,
Eimreiðin, 3/1913, bls. 217–220, hér bls. 217–218.
19 Björg C. Þorláksson, ritdómur um Drauma eftir Hermann Jónasson, Eimreiðin,
2/1914, bls. 147–148, hér bls. 147.
20 Björg C. Þorláksson, ritdómur um Hug og heim eftir Guðmund Finnbogason, bls.
218.
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR