Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 130
129
hefur fram áttu fræðimennirnir sem mótuðu íslensk fræði á upphafsárum
Háskóla Íslands það til að tjá sig skáldlega og oft kemur fram það viðhorf
að eitt helsta hlutverk gagnrýnanda sé að ná einhvers konar sambandi við
höfundinn í gegnum verkið. Árið 1909 segir Sigurður Nordal til dæmis
í ritdómi um Systurnar frá Grænadal eftir Maríu Jóhannsdóttur að „það
besta“ við söguna sé hversu augljóslega sál höfundarins skín í gegn:
Þegar ég er búinn að rannsaka listagildi bókarinnar og lesa úr því
framtíðarörlög höfundarins, þá tek ég hana og les sem vitnisburð
um mannlega sál (document humain). Ég hugsa um, að bak við
þessa dauðu bókstafi slær hjarta og hugsar sál. Ég fer að hugsa um
höfundinn, reyna að kynnast honum og skilja hann.51
Gæði verka voru að einhverju leyti metin út frá því hversu auðvelt það
reyndist og hversu göfug sálin var sem skein í gegn. Bók Maríu skorar ekki
hátt því Sigurði þykir stúlkusálin bak við hana ófrumleg og brosleg, en af því
bókin ber vitni um „[a]lvörugefna, draumlynda stúlku með tilhneigingu til
þunglyndis, en sterka trú á það góða í mannlífinu og framtíð íslenzku þjóð-
arinnar“ segist hann geta skilið og fyrirgefið „ýmsa galla bókarinnar“.52
Ágúst H. Bjarnason virðist að einhverju leyti líta á ritdóm sem hann
skrifar um ljóð Jakobs Thorarensens sem samtal milli sín og skáldsins, en
hann segir að eitt ljóðið sé „átakanleg sjálfslýsing“ og endar á því að ávarpa
skáldið beint og svara ljóðlínum sem gætu þótt lýsa svartsýni og uppgjöf:
[…]
Svo kveð eg alla kunningjana hér,
og kærar þakkir fyrir glaðar stundir.
Þið gleymið mér, ef fjöllin skakt ég fer
– ef forlaganna sköflum verð ég undir.
Nei! Jakob. Við sjáumst aftur. Ég veit, að maðurinn á svo mikinn
kjark til og karlmannslund, að hann lætur naumast bugast í torfær-
unum. 53
Ritdómur Ágústs er opinber sviðsetning á einlægri og persónulegri sam-
ræðu sem á erindi á opinberan vettvang því hún endurspeglar eitthvað
51 Sigurður Nordal, ritdómur um Systurnar frá Grænadal eftir Maríu Jóhannsdóttur,
Eimreiðin, 2/1909, bls. 146–148, hér bls. 147.
52 Sama rit, bls. 147.
53 Ágúst H. Bjarnason, ritdómur um Snæljós eftir Jakob Thorarensen, bls. 92 og 93.
Á SLÓÐUM HJARTALAUSRA FRÆÐINGA