Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 127
126
menntaða manni þyki vænst um.40 Afstaða manna til bókmenntagagnrýni
almennt einkenndist þannig af áherslu á sérstöðu hennar á mörkum rök-
hugsunar og tilfinninga, lista og fræða. Sporgöngumaður Richards, Allen
Tate, var m.a. háskólakennari en hann sagðist líta á hinn ó-akademíska
bókmenntamann, „Man of Letters“, sem fyrirmynd og nefndi í því sam-
hengi T.S. Eliot og Herbert Read.41 Í skrifum hans endurspeglast það
viðhorf að bókmenntirnar hafi þá sérstöðu sem viðfangsefni að vísindaleg
nálgun nægi ekki; eitthvað glatist ef ekki séu einnig mynduð tengsl við þær
á tilfinningalegan, persónulegan hátt.
Hlutverk bókmenntagagnrýnandans hefur ekki hvað síst verið talið að
hlúa að og hampa þeirri hlið bókmenntanna sem vísindin ná ekki yfir;
hinum sammannlega þætti sem Aðalbjörg Benediktsdóttir lýsir svo árið
1926:
Að hugsa sjer annað eins undur og það, að þurfa ekki nema að rjetta
út höndina, grípa lítinn, ljettan hlut, bókina, og opna hana. Og þá
streyma inn í hug lesandans hugsanir annara manna og reynsluauð-
ur þeirra, líf þeirra og stríð, sæla þeirra og sorgir, vonir þeirra og
trú.42
Vísindi og tækni eru hins vegar gjarnan talin ógna mennskunni og samhliða
framfaratrúnni, sem ýtti undir vísindalegar rannsóknir á bókmenntum og
þróun nýrrar tækni til að fjalla um þær, til dæmis nákvæmrar aðferðafræði
og tæknilegs orðaforða nýrýninnar, má merkja tortryggni í garð vísinda-
legrar hugsunar um þetta vígi mennskunnar. Árið 1958 segir Sigurður A.
Magnússon að það sé „hægt að greina ákveðið ljóð í ýmsa þætti og rann-
saka þá hvern fyrir sig, en slík rannsókn gef[i] aldrei svar við spurningunni:
Hvað er ljóð?“:
Ljóð er ekki einungis summan af öllum sínum pörtum, heldur eitt-
hvað annað og meira sem við fáum aldrei hönd á fest. […] Allt líf er
óskilgreinanlegt – einnig líf ljóðsins.43
40 I.A. Richards, Practical Criticism. A Study of Literary Judgment, London: Routledge
& Kegan Paul Ltd., 1964, bls. 6.
41 Allen Tate, „Preface“, bls. xi.
42 Aðalbjörg Benediktsdóttir, „Erindi flutt á 30 ára afmæli kvenfjel. Húsavíkur 13.
febr. 1925“, Hlín, 1927, bls. 96–109, hér bls. 108.
43 Sigurður A. Magnússon, „Ljóðagerð yngri skáldanna“, Félagsbréf, 7/1958, bls. 6–25,
hér bls. 24.
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR