Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 53
52
gefa til kynna hvaða kjarni og inntak liggja þar undir yfirborði samhengis
frásagnarinnar.“51 Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu eru lýsingarnar ekki alltaf af
þessu tagi. Sumar eru aðeins lýsingar á efniviðinum, en aðrar leiðbeina les-
endum í því hvernig skuli túlka sögurnar: „Lávarðurinn af Virle, og ekkjan
ZILIA, veita elskendum kennslu í að forðast hóflausar ástir, þau vitna um
óumflýjanleika yfirbótar, þau vara við öllum ósæmilegum flýti, svo að hann
kalli ekki á refsingu vegna græðgi og hégóma.“52 En þýðingarlegar ákvarð-
anir Painters í einstökum nóvellum styðja ekki alltaf við þann siðferðilega
boðskap sem lýsingin ber með sér. Sem dæmi má nefna lýsinguna á sög-
unni um Rómeó og Júlíu, inngangsorð nóvellunnar og söguna sjálfa sem
eru ekki í samræmi við það yfirlýsta markmið að sagan eigi að vara við
hættunni sem fylgir því að giftast án þess að hafa foreldra með í ráðum.
Þessi munur gefur til kynna að listanum sé fyrst og fremst ætlað að réttlæta
verk Painters gagnvart gagnrýnendum.
Ef við samþykkjum þær forsendur að lesendur texta á sextándu öld
hafi lesið og túlkað texta á mismunandi hátt og að höfundar hafi reynt
að hafa áhrif á það hvernig verk þeirra voru lesin, þá má halda því fram
að umvandanirnar og túlkanirnar sem bæði franskir og enskir þýðendur
ítalskra nóvella bættu við þær hafi verið tilraunir til að stjórna því hvern-
ig þær voru lesnar, þ.e.a.s. hvaða skilning lesendur áttu að leggja í þær.
Ítölsku nóvelluhöfundarnir settu siðferðilegan boðskap þeirra sjaldnast
fram á skýran eða áberandi hátt en þýðendurnir sáu ástæðu til að bæta
þessum þætti við.53 Það er engin leið að slá því föstu af hverju það staf-
aði, en kannski treystu þýðendurnir ekki getu lesenda sinna á sama hátt
og ítölsku höfundarnir til að túlka þennan boðskap af sjálfsdáðum. Þetta
vantraust gæti líka stafað af því að þeir sáu fyrir sér fjölbreyttari hóp les-
enda en þeir ítölsku eða höfðu meiri áhyggjur af því að lesendur myndu
ekki lesa textana eins og til var ætlast í ljósi þeirrar gagnrýni að þeir væru
siðferðilega vafasamir.
Þó að óvíst sé af hvaða hvötum þessar siðferðilegu túlkanir eru sprottnar
er áhugavert að þær eru stundum augljósar í samhengi sögunnar en stund-
um alls ekki.54 Hjá Painter eru þessar viðbætur gjarnan tilraun til að gera
51 Painter, The Second Tome of the Palace of Pleasure, ***1r.
52 Sama rit, ***1v–***2r.
53 Frekari umfjöllun um þessar viðbætur Painters við texta Boccaccios sjá: Wright,
Boccaccio in England from Chaucer to Tennyson, bls. 159–60.
54 Sjá umfjöllun um þetta atriði í doktorsritgerð minni.
Ásdís siGmundsdóttiR