Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 21
GUNNAR KRISTJÁNSSON
Lífsviðhorf
síra Matthíasar Jochumssonar
1.Inngangur
Vafasamt ER, að nokkur hafi haft jafnmikil áhrif á trúarskilning og
þar með lífsviðhorf Islendinga á þessari öld og þjóðskáldið síra
Matthías. Þar vega sálmar hans þyngst, enda eru þeir enn mikið
notaðir við kirkjulegar athafnir og þá ekki síst við jarðarfarir. Hver
þekkir ekki „0 faðir, gjör mig lítið ljós“, „Hærra minn Guð til
þín“, „Hvað boðar nýárs blessuð sól“ eða „Lýs milda ljós“ ? Mér er
til efs, að sálmar eftir önnur skáld eigi slíkum vinsældum að fagna
sem sálmar Matthíasar, þýddir og frumortir.
Ekki spillti það heldur fyrir, að síra Matthías var þegar í lifanda
lífi þjóðsagnapersóna, sem naut vinsælda af ýmsum ástæðum.
Hann var hinn þjóðlegi og galsafengni höfundur Skugga-Sveins,
menningarfrömuðurinn, sem þýddi fjögur leikrit Shakespeares, og
hinn virðulegi höfundur þjóðsöngsins. Afköst hans eru með ólík-
indum og fjölhæfni hans á bókmenntasviðinu nánast með eindæm-
um.
Matthías átti sér þann draum þegar í bernsku að verða prestur
eins og hann hefur sagt frá í Söguköflum af sjálfum mér} En það
reyndist honum allt annað en auðvelt að hlýðnast þeirri köllun,
sem hann hafði til prestsþjónustu. Hún var honum þjáning alla ævi.
Samt átti hún hug hans allan. Vissulega var Matthías einnig kallað-
ur til að vera skáld og því kalli hlýddi hann fúslega og - að því er
virðist - fyrirhafnarlítið.
Á efri árum var Matthías hinn góði og glaðlegi öldungur Akur-
eyrarbæjar, raulandi fyrir munni sér lagstúfa, sjálfsagður heiðurs-
gestur á hverju mannamóti, alltaf góður og alltaf glaður, hittinn í
orðum og sjór af safaríkum sögum, sem féllu mönnum vel í geð. En
hið innra var barátta alla tíð, einlægt sami kvíðinn í sálinni, sama