Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 116
110
MAGNÚS FJALLDAL
SKÍRNIR
börðust kapparnir Egill og Þórólfur Skalla-Grímssynir, ekki þó
með víkingahernum heldur sem málaliðar Aðalsteins konungs.
Lýsing Eglu á bardaganum er mjög forvitnileg, en ekki að sama
skapi áreiðanleg. Til að mynda er frásögnin af brögðum Aðalsteins
til að vinna tíma, svo hann mætti safna liði, heldur grunsamleg. Þar
gerist allt í skipulegum þrennum. Sendimenn fara þrisvar til Olafs
konungs og kría út þriggja daga frest í hvert skipti. Þá er mjög
ósennileg sú fullyrðing sögunnar, að Aðalsteinn hafi boðið að
leggja allt England þeim til handa, er færi með sigur af hólmi. Hon-
um var einfaldlega engin þörf á slíkri stórmennsku. Sömuleiðis er
mjög nákvæm lýsing sögunnar á vígvellinum ótrúleg í ljósi þess, að
engar enskar heimildir skýra frá staðháttum, þrjár aldir eru liðnar
frá því bardaginn átti sér stað, og Vínheiði þekkist ekki sem örnefni
á Englandi. Loks hefur þáttur Þórólfs verið dreginn í efa og bent á,
að miklu sennilegra sé, að hann hafi fallið við ána Vínu á Bjarma-
landi árið 925, og rugli Egluhöfundur þessum tveimur stórorrust-
um saman.5 En það er önnur saga.
Eins og lesendur Egils sögu þekkja, vann Aðalsteinn frækilegan
sigur á óvinum sínum. Enski annállinn lýsir þessum atburðum í
formi hetjukvæðis, sem blátt áfram geislar af sigrihrósandi ill-
kvittni í garð hinna sigruðu.
Þessi ósigur þrengdi mjög að yfirráðum norrænna manna á Eng-
landi. Að venju var ókyrrt á Norðymbralandi, og þar ríktu um hríð
þeir Eiríkur blóðöx og Olafur kvaran, en 954 gengu Norðymbrar
Eadræd (Játráði) konungi á hönd, og þar með lögðust af fyrir fullt
og allt sjálfstæðar nýlendur norrænna manna á Englandi.
Frá 955 til 980 fengu Englendingar loks þann frið, sem þeir
höfðu þráð svo lengi. Og það var ekki að sökum að spyrja. Nýtt
blómaskeið í menningu og listum rann upp. Kirkjan rétti sinn hlut,
klaustrin voru endurreist, og heiðingjarnir norrænu virtust eins og
fjarlæg martröð. En Englendingar máttu þola það enn á ný að
vakna upp við vondan draum og hann verri en nokkru sinni fyrr.
1 Danmörku og Noregi var Haraldur blátönn um þessar mundir
í óða önn að þröngva þegnum sínum til kristni. Ekki vildu allir
þýðast hinn nýja sið, og lögðu menn nú eina ferðina enn í vestur-
víking. Árið 991 voru þessir útlagar orðnir að heilum herskara, sem
ýmist kúgaði skatt af heimamönnum eða fór um suður- og vestur-