Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 163
SKÍRNIR
RITDÓMAR
157
þá var hann löngum eitt af aðalsmerkjum Sigurðar sem ritskýranda og
fræðimanns. Enda þótt höfundur víki hér og þar að kenningum erlendra
fræðimanna, er þar hvergi um ómelta hugmyndasögu að ræða. Þvert á móti
hefur Sigurður lag á því að vega og meta annarra þanka af smekkvísi og
kostgæfni. Annað sem ber frumleika Sigurðar fagurt vitni er málfarið á
lestrunum. Hann getur þess sjálfur í bréfi til Ágústs H. Bjarnasonar frá
1915, sem prentað er í bókarlok, að það sé ekki þrautalaust að íslenska þessi
fræði: „Eg finn sáran til orðaleysisins þegar ég ætla að skrifa um það, sem
ég hef lesið eða hugsað, á sæmilegu máli. Auk þess vil ég ekki vera að búa
til orð yfir hugtök, sem aðrir eru ef til vill búnir að skíra betur“ (299). Það
hefur ávallt verið einn stærsti vandi þeirra, sem hafa skrifað um heimspeki
og skyld fræði á íslensku, að koma þeim orðaforða sem notaður er í þessum
greinum, á sæmilegt mál. I þeim efnum má tvímælalaust margt læra af fang-
brögðum Sigurðar við orðin og þeirri nýyrðasmíð sem hann stundar í Ein-
lyndi og marglyndi. Ég nefni sem dæmi „orðleiðslufræði", „hugsmíðaafl“
og „leikhyggju", en þau orð finnst mér bera smíðagáfu Sigurðar skemmti-
legt vitni. Það er reyndar tímabært, að einhver glöggur íslenskufræðingur
taki sig til og geri allsherjarúttekt á mályrkju Sigurðar Nordal, en Sigurður
var einn atkvæðamesti og listfengasti nýyrðasmiður á íslenska tungu.
Að endingu ber að geta þess, að frágangur bókarinnar Einlyndi og marg-
lyndi er útgefendum til sóma. Það var vel til fundið að láta fylgja með þau
sendibréf, sem prentuð eru í Viðauka, þareð þau varpa nokkru jjósi á
undirbúning lestranna. Sömuleiðis er mikil bót að þeim athugasemdum og
skrám, sem er að finna í bókarlok, ekki síst útlendingatalinu sem er þarfa-
þing. Inngangur Þorsteins Gylfasonar, sem fyrr var nefndur, er hnyttinn á
köflum og lipurlega stílaður, eins og Þorsteins er von og vísa. Að vísu er
mér ekki alls kostar ljóst, hvað Þorsteinn á við með þeim orðum, að Ein-
lyndi og marglyndi hafi heimildargildi um lífið í Reykjavík, nema þá ef vera
kynni hnyttin innskot á borð við þetta: „I Reykjavík er nærri nóg að vera
útlendingur til þess að maður geti hagað sér eins og hann vill. Siðferðistil-
finningin er sljó, venjur allar á reiki, allir hafa þá tilfinningu, að menningin
sé lök eftirlíking annars betra, þeir hafa ekki í fullu tré gegn þeim, se.m
brjóta reglurnar, einkum ef þeir halda, að þeir þekki aðrar reglur“ (80).
1. Dægradvöl, Rvík 1965, bls. 140.
2. Guðmundur Finnbogason: Hugur og heimur, Rvík 1912, bls. 7.
3. Einlyndi og marglyndi, Rvík 1986. Blaðsíðutöl innan sviga vitna til
þessarar bókar.
4. Fornar ástir, Rvík 1949 (önnur útgáfa), bls. 162.
5. Áfangar 1, Rvík 1943, bls. 4.
6. Sama rit, bls. 110.
7. Sama rit, bls. 83.
8. Fornar ástir, bls. 98-9.
9. Sama rit, bls. 133-4.
Arthúr Björgvin Bollason