Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 18
12
VÉSTEINN LÚÐVÍKSSON
SKIRNIR
það hvílir hið einangraða og upphafna sjálf. Öllum þessum bind-
ingum, öllu þessu öryggi, sem líf okkar snýst um meira og minna,
er ætlað að koma í veg fyrir að við finnum nokkurn tíma að ráði
fyrir undirstöðu eigin vitundarlífs, sem er m. a. óöryggi, ófull-
nægja, hræðsla og einsemd. Og að kynnast þessu, svo ekki sé
minnst á að gefa sig því á vald, er auðvitað ekki gamanið eitt.
Og enn á „krossinn“ eftir að þyngjast. Því með því að taka til
okkar eigin þjáningu, verðum við móttækilegfyrirþjáningu annar-
ra. Og hver vill það? Svo dæmi sé tekið teljum við okkur stundum
trú um að við höfum alvarlegar áhyggjur af síbreikkandi bili milli
ríkra og fátækra, en látum það samt viðgangast, stuðlum jafnvel að
því beint og óbeint, og vitum við þó vel að stór hluti heimsins lifir
í vesöld. „Ahyggjunum" er sem sé stillt í hóf. I raun viljum við
hvorki þjást með öðrum né virðumst við vera fær um það. Sem er
ekkert skrítið, því að á meðan við flýjum eigin þjáningu, flýjum við
þjáningu annarra. Og á meðan við kjósum að vera eins ósæranleg
og frekast er kostur, gerum við okkur ómóttækileg, ekki aðeins
fyrir þjáningu heimsins, heldur líka fyrir fögnuði lífsins. Við kjós-
um m. ö. o. „að bjarga lífinu“, okkar takmarkaða lífi í eigin sjálfi,
af því við viljum finna sem allra minnst til. En sá sem finnur ekki til,
finnur ekki heldur það líf sem að framan var kennt við annað og
meira. Hann dæmir sig til að hokra í eigin yfirborði, sem merkir að
hann dæmir sig til dauða í trúarlegum skilningi. „Hann fyrirgerir
sálu sinni.“ Hann getur í mesta lagi gert sér þægilega mynd af guði,
komið sér fyrir í henni og reynt að láta sér líða vel. En það er ekki
trú, heldur aðeins ein blekkingin enn.
Ég fæ ekki séð að Jesús Kristur bjóði upp á neinar málamiðlanir
í þessum efnum. Hann er að því leyti miskunnarlaus kennari að
hann slakar ekki á kröfunni um sjálfsafneitun, né gefur hann fólki
kost á að ímynda sér að sjálfsafneitun sé möguleg án þjáningar. Við
getum efast um raunsæi þessarar afstöðu fyrir allan þorra fólks -
sagan sýnir að flestum okkar er betur lagið að nudda okkur utan í
Jesú sem einhvers konar átrúnaðargoð en að fylgja honum sem
kennara og Kristi - en við getum ekki efast um afdráttarleysið í
boðuninni. Og leiðin sem hann ætlar fylgjendum sínum er greini-
lega leið hans sjálfs: píslarganga, krossfesting, upprisa. Raunveru-