Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 169
SKÍRNIR
RITDÓMAR
163
arlega var betur gert en ógert. Vonandi verður hann sjálfur eða einhverjir
aðrir til þess að reyna að gera ennþá betur.
Sigurður Steinþórsson
Elín Pálmadóttir
GERÐUR
Ævisaga myndhöggvara
Almenna bókafélagið, Reykjavík 1985.
Gerður Helgadóttir myndhöggvari lést árið 1975 aðeins 47 ára gömul.
19 ára hélt hún út í heim til þess að afla sér menntunar, og það varð hlut-
skipti hennar að búa og starfa á erlendri grundu þessa allt of stuttu starfs-
ævi. Þar átti hún lengst af heima (á Ítalíu, Frakklandi og síðast í Hollandi),
þar var starfsvettvangur hennar, og þar liggja flest hennar spor. Þó fjölgaði
verkefnum á Islandi mjög síðustu árin, og má ætla, að þau hefðu orðið
fleiri, ef henni hefði unnist tími og heilsa til.
Fjölskylda Gerðar fluttist frá Norðfirði, þegar Gerður var barn að aldri,
og settist að í Kópavogi. Var fjölskyldunni alla tíð mjög annt um Kópavog,
og að Gerði látinni gaf hún Lista- og menningarsjóði Kópavogs öll lista-
verk dánarbúsins. Þar er gert ráð fyrir að rísi listasafn, sem beri nafn Gerðar
og geymi listaverk hennar.
Það gefur auga leið, að skrásetning ævisögu slíkrar listakonu er ekki að-
eins fengur fyrir íslenska menningarsögu, heldur beinlínis nauðsynleg
þeim sem taka við safni Gerðar, varðveita það og koma því á framfæri við
almenning.
Elín Pálmadóttir, blaðamaður og náin vinkona Gerðar, hefur tekið að
sér að skrá þessa sögu. Það er ljóst, að fáir hefðu staðið eins vel að vígi til
að koma lífsferli Gerðar til skila við komandi kynslóðir. Elín kynntist
Gerði í París, þegar hún starfaði þar við sendiráð íslands, en Gerður var þá
að byrja að feta sig út á listabrautina og losa sig frá öryggi skólaáranna. Þar
tengdust þær sjaldgæfum vináttuböndum, sem aldrei rofnuðu. Elín gekk
síðar í lið með fjölskyldu Gerðar heima á íslandi, sem var vakin og sofin við
að hlúa að velferð hennar og vegsemd. Þær skrifuðust á alla tíð. Elín annað-
ist margvísleg erindi fyrir Gerði hér heima, og þegar hún var öll, fór Elín
út með systur Gerðar til þess að ganga frá eigum hennar og flytja listaverkin
heim til íslands. Líta má á þessa bók sem lokakaflann í sögu vináttu þessara
tveggja kvenna, og að Elín sé að endurgjalda Gerði þá auðlegð, sem kynni
við hana og list hennar hafa veitt henni.
Aðferð Elínar er skýr. Hún skiptir bókinni niður í þrettán afmarkaða
kafla, sem hver um sig hefur visst sjálfstæði, og tengjast ekki nema lauslega
í tímaröð. Fyrsti kaflinn nefnist „Upphaf heimsreisunnar" og segir frá því,
þegar Gerður, þessi grannvaxna 19 ára stúlka með rauðgullið hárið, leggur