Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 146
140
REYNIR AXELSSON
SKIRNIR
geng því að því vísu að henni sé umfram allt - og sennilega einungis - ætlað
að vera orðaleitarbók. Það er vissulega í samræmi við klausurnar úr
Skírnisgreininni sem ég tilgreindi hér á undan, og önnur not hennar eru
vandséð.
Orðið samheitabók eða samheitaorbabók er í rauninni rangnefni á orða-
leitarbók. Sá sem er að leita að orði sem hann hefur ekki á takteinum hefur
yfirleitt alls engan áhuga á að finna samheiti einhvers orðs sem hann man
eftir og getur flett upp. Ef við skiljum orðið samheiti þrengsta skilningi og
köllum tvö orð samheiti þá og því aðeins að alltaf megi setja annað í stað
hins í hvaða samhengi sem er án þess að merking breytist, þá getum við tek-
ið dýpra í árinni og haldið því fram að þá þurfi menn aldrei á samheiti að
halda, nema þeir séu að yrkja kvæði og það orð sem þeir muni eftir dugi
ekki vegna ríms, hrynjandi eða stuðla. [Einhver kynni að vilja segja að
menn gætu þurft á nákvæmu samheiti að halda til að forðast endurtekningu
og auka þannig fjölbreytni í stíl, en sá sem reynir slíkt er oft á villigötum;
sjá t. d. Fowler um elegant variation4.]
Sumir hafa að vísu haldið því fram að engin tvö orð séu algjör samheiti í
þessum stranga skilningi. Þetta er að vísu fullmikið sagt (t. d. hljóta íðorð
með nákvæmlega sömu skilgreiningu, svo sem orðin heildi og tegur í
stærðfræði, að teljast algjör samheiti), en vissulega er það algengara að tvö
orð séu ekki alveg jafngild; þótt þau hafi kannski í einhverjum skilningi
sömu merkingu, þá hafa þau oftar en ekki ólíkt stílgildi eða ólík blæbrigði,
að minnsta kosti í sumu samhengi. Hér má vitna til formála ritstjórans:
Hér skal þó skýrt tekið fram, að sjaldan er hægt að tala um að tvö orð
séu nákvæm samheiti, hafi nákvæmlega sömu merkingu, heldur ber
að líta svo á, að samheiti hafi svipaða merkingu, hliðstæða eða nokk-
urn veginn sömu merkingu eftir atvikum. Þannig ber að hafa í huga
við notkun bókarinnar, að yfirleitt er sjaldan hægt að nota eitt sam-
heiti nákvæmlega í annars stað. Orðin verður að velja eftir blæbrigð-
um merkinga, og þessvegna þarf eftir sem áður að leita til venjulegra
orðabóka til að ganga úr skugga um merkingu orðs, t. d. orðs sem
notandinn þekkir ekki fyrir.
Orðið samheiti hefur því ekki alveg skýrt afmarkaða merkingu, heldur má
skilja það þröngum eða víðum skilningi eftir atvikum. En það skiptir nátt-
úrlega afar miklu máli hvaða skilning höfundar samheitabókar leggja í
orðið.
Það ætti að vera eðlilegt fyrir höfund aðgreiningarorðabókar að skilja
það tiltölulega þröngum skilningi; hann hefur umfram allt áhuga á að gera
greinarmun á orðum sem eru svo skyld að fólki hætti til að rugla þeim sam-
an eða að minnsta kosti nota annað í stað hins í einhverju samhengi þar sem
það á ekki við. Að sama skapi er eðlilegt fyrir höfund orðaleitarbókar að
skilja það sem víðustum skilningi, því að notendur slíkrar bókar geta verið