Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 19
SKÍRNIR
LÍF OG ÞJÁNING
13
leg sjálfsafneitun er stöðug píslarganga sem felur í sér möguleika á
dauða sjálfsins, krossfestingu þess, en þessi dauði er um leið upp-
risa og endurfæðing. Þannig skilin verður píslargangan annað og
meira en píslarganga, þjáningin annað og meira en þjáning, hún
verður hin hliðin á því sem meistarinn kallaði frið og fögnuð.
Við viljum frið. Við viljum fögnuð. En við viljum sem minnst
vita af þjáningunni. Við erum eins og maðurinn sem vildi eld en
engan hita. Fegins hendi tökum við hverju því sem getur veitt okk-
ur stundaránægju. Meðan á henni stendur þurfum við ekki að finna
til, við getum jafnvel talið okkur trú um að við höfum höndlað hinn
æðsta fögnuð. Og þegar einni ánægjustundinni er lokið, kannski
fyrr en varði með þreytu og tómleika, verður okkur ekki skota-
skuld úr því að skreppa yfir í þá næstu, því að hér verður framboðið
æ fjölbreytilegra. Af miklu hugviti hefur hinn auðugi og tækni-
væddi hluti heimsins séð okkur fyrir svo mörgum flóttaleiðum
undan okkar eigin þjáningu og annarra, að með ofurlítilli útsjónar-
semi þarf okkur aldrei að skorta möguleika á undankomu, mögu-
leika á mátulega léttum doða eða hæfilegri ertingu. Þannig er sá
friður sem við kjósum okkur. Hann er ekki innri friður, né getur
hann kallast djúpur. Hann er stundarfriður í okkar eigin yfirborði.
Og svipað má segja um þann „fögnuð“ sem fylgir honum. Enda
þurfum við ekki annað en að líta í kringum okkur, eða verða fyrir
því að detta sjálf út úr eigin vana og öryggi smátíma, til að sjá að
heimurinn býr ekki við frið og fögnuð. Hann býr við falskt öryggi
og þarf æ kröftugri meðul til að telja sér trú um að þau dugi honum.
Hann ber með sér þjáningu sem hann neitar þó að taka til sín. Og
hann er sleginn ótta við óhugnanlega framtíð, án þess þó að geta
horfst í augu við hann.
Og heimurinn er við. Aðeins með því að ímynda okkur að við
séum, hvert um sig, einvörðungu sjálfstæð tilvist, þ. e. vendilega
aðskilin frá allri annarri tilvist, getum við komist að þeirri niður-
stöðu að við séum eitthvað annað en heimurinn, eða lífsheildin, og
þannig firrt okkur allri ábyrgð. Hér komum við aftur að því sama,
aðeins frá annarri hlið en áður. A meðan við getum ekki tekið til
okkar og borið ábyrgð á eigin þjáningu, erum við ófær um að bera
raunverulega ábyrgð á þjáningu heimsins. Og á meðan friður okk-