Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 43
SKÍRNIR
LÍFSVIÐHORF SÍRA MATTHÍASAR
37
hinnar köldu rökvísi. Heldur þeirrar heitu skynsemi, sem tekur gilt
það sem Pascal nefndi coeur, hjartað, þ. e. a. s. innsæið, tilfinn-
ingarnar og ýmsa þætti aðra í mannlegum veruleika, sem ekki verða
svo auðveldlega flokkaðir undir „hreina" skynsemi.
Matthías á að þessu leyti margt sameiginlegt með samtímamanni
sínum einum úr fjarlægu landi, skáldi, sem hann minnist aldrei á -
að því best verður séð - þótt undarlegt megi virðast. Það er rúss-
neska stórskáldið Dostojevskí, sem var fjórtán árum eldri en Matt-
hías. Dostojevskí þekkti lífsháskann rétt eins og Matthías og hann
hafði einnig heillast af hugsjónum frönsku byltingarinnar 1848 um
frelsi og réttlæti. Það sakar ekki að hafa það í huga, að Rússland var
á þessum tíma, s. hl. 19. aldar, vanþróaðasta land Evrópu, þar sem
80 prósent íbúanna tilheyrði ólæsri bændastétt.
Dostojevskí var byltingarmaður í hugsun eins og Matthías,
spámannlegur í orðum eins og íslenski sveitapresturinn. Lokavetur
Matthíasar í Prestaskólanum byrja stóru skáldsögur Dostojevskís
að koma út: Glæpur og refsing 1866; Fávitinn tveim árum síðar,
sama árið og Elín Sigríður deyr; Djöflarnir sama árið og Ingveldur
kveður þennan heim og Karamazovbræðurnir rétt áður en Matt-
hías hefur búslóð sína til klakks og heldur austur að Odda (1878-
80).
Dostojevskífræðingar benda á, að skáldjöfurinn hafi á seinni
árum litið svo á í vaxandi mæli, að ekki væri allt undir því komið að
vinna með höfðinu, hin gagnrýna og sundurgreinandi, efandi
skynsemi sé ekki allt. Jafnvel meira máli skipti - og um það bera
skáldsögur hans vitni — kraftur hjartans, líf mannsins og reynsla.34
Og hér er aftur komið að móðurinni í vitund Matthíasar. Hann
taldi hugsýki og hjartveiki vera ættarfylgju föðurættarinnar, en frá
móður sinni fékk hann í vöggugjöf hugrekki og lífsgleði. Móðirin
er í hans vitund ímynd þessa frumkrafts, hugrekkisins til að lifa og
veita hugsýkinni og dauðanum viðnám. Það er spurningin, hvort
að baki föðurhugtakinu, sem svo mikið er fyrirferðar í sálmum og
prédikunum síra Matthíasar, er ekki þegar allt kemur til alls ímynd
móðurinnar, mynd Þóru Einarsdóttur.
Trúarheimspekingar og spámenn á stjórnmálasviðinu setja fram
hugsjónir sínar og skoðanir í greinum og ritgerðum. Dostojevskí