Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 185
SKIRNIR
RITDÓMAR
179
Húsin fá steypu í mótin svo þau stækki og stækki. En við; okkur
er gefið lýsi svo við stækkum og stækkum.
Ljósgrá steypan verður hörð og sterk svo húsin fjúki ekki með
vindinum útí buskann. En við spennum vöðvana í von um að verða
harðir og sterkir eins og húsin.
Helst vildum við vera úr steypu, úr ljósgrárri steypu með járn-
kalla í fingrunum. (178)
Þegar þessir hugprúðu riddarar leggja í krossferð sína upp hringstiga
fokhelda hússins, vopnaðir naglaspýtum, hefnist þeim fyrir „ofmetnað"
sinn því „grár“ veruleikinn skerst í „leikinn“; Garðar hrapar og deyr og
veröld þessara drengja glatar sakleysi sínu. Fallið er útlistun þess ósam-
ræmis húsa og barna sem þarna viðgengst. Borgin virðist ekki bjóða upp á
„náttúrulegt“ umhverfi fyrir frjóar barnssálir í mótun og Vœngjaslátturinn
fjallar um örvæntingarfulla leit að náttúru í Hverfinu. Dúfurnar koma
strákunum í snertingu við náttúruna og sköpunarútrás fá þeir í kofa-
byggingum. Jafnframt má segja að bygging kofaþorpsins sé tilraun til að
byggja Hverfið á nýjaleik, þar sem hin fyrri „heimssköpun“ hafi ekki átt
sér stað með þarfir barna í huga. Tortíming kofaþorpsins er því endurnýjað
hrun þessarar strákamenningar, en nú verður ljóst að „fallið“ kollvarpar
jafnframt heimi fullorðinna, þeim heimi sem við mætum í Eftirmálanum,
og það er gegn þeim heimi sem veðurguðirnir efna til syndaflóðs.
Hrun strákamenningarinnar tákngerist meðal annars með því að börn
birtast einungis sem ópersónulegur og ónafngreindur hópur í Eftirmálan-
um, tímakennsluflokkur Daníels prests sem nú stígur fram af baksviði fyrri
bóka og gerist mikilvæg sögupersóna ásamt Sigríði konu sinni. Af öðrum
persónum þekktum við best fyrir Anton rakara, en könnumst einnig við
Sigga pylsusala og söðlasmiðinn sagnaglaða er í ölteiti á verkstæði sínu þyl-
ur frásagnir yfir fjórtán trillukörlum og bóndanum Gunnari, sem eins og
nafni hans forðum neitar að yfirgefa sveit sína - allt eins þótt hún sé komin
inn í miðja borg. Þessir karlar mynda því með sanni eins konar sérheim í
veröld verksins. En hér eru einnig fleiri annarlegir karlar á ferli, einkum
drukknuð skipshöfn sem er merkileg hliðstæða trillukarlahópsins: á með-
an annar flokkurinn lætur sefjast af „lygisögum“ þeim sem renna af vörum
söðlasmiðsins, er hinn hópurinn ljóslifandi draugasaga sem fólkið í hverf-
inu upplifir. Loks má nefna grænklædda vofu með klakahröngl í skeggi og
konuhaus undir handleggnum, en henni bregður einnig fyrir í ágætri smá-
sögu Einars, „Þegar örlagavindarnir blésu“, sem birtist í Tímariti Máls og
menningar í fyrra (3/1986). Þar er að sjá sem vofan valdi bílslysi og dauða
og hún tengist einnig örlagaríkum atburðum hér.
Aður en vikið verður nánar að því sem fram fer í Eftirmálanum langar
mig að ræða örlítið efnistök höfundar í fyrri verkum, í þeirri von að það
glöggvi sýn yfir sagnagerð Einars til þessa.