Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1988, Side 88
Kristján Búason
Gamla testamentisins. Auk bókstaflegrar merkingar fundu þeir merkingu,
sem tjáði siðferði, ennfremur von og loks trú. Dæmi um þetta er t.d.
útlegging nafnsins Jerúsalem í textum Gamla testamentisins, nánar tiltekið
hjá Cassianusi (d. 435). Siðferðileg merking er sál einstaklingsins, vonin
er um hina himnesku borg, og trúarlega merkingin er hin kristna kirkja.
Þessi útleggingaraðferð varð ríkjandi í kirkjunni á miðöldum og gekk
undir nafninu quadrigia. Eftirfarandi minnisvers á latínu frá miðöldum
lýsir henni: Littera gesta docet, quid credas allegoria, moralis quid agas,
quo tendas anagogia. Hún gerði ráð fyrir því, að Guð hefði ætlað orðum
höfunda merkingu, sem þeim var ekki meðvituð. Þannig lásu menn
kenningarhefð kirkjunnar inn í textana. Tómas Aquinas (d. 1274) hélt því
þó fram, að ekki mætti byggja kenningar á óeiginlegri merkingu
eingöngu.
Ritskýring siðbótarmannanna
Með siðbót Lúthers, sem tengdist persónulegri uppgötvun hans og
reynslu af náðarboðskap Nýja testamentisins við rannsókn þess, hefst
andóf hans gegn óeiginlegri túlkun ritningarinnar. Lúther lagði áherzlu á
bókstaflega merkingu textans í sögulegu samhengi hans og taldi hina
andlegu merkingu felast í henni. Með því átti hann við, að í hinni
bókstaflegu merkingu talaði Guð, faðir Jesú Krists, til lesandans og þó
miklu fremur heyrandans, þar sem vitnisburðurinn um Krist var að hans
skilningi tiltal, ávarp til syndugs manns. Samtímis því, að Lúther haínaði
allegoriskri eða óeiginlegri útleggingu, sá hann í atferli persóna, sem lýst
er í ritningunum, fyrirmyndir að lífi og trúarreynslu kristins manns. Þar
með var þó ekki hafin markviss sagnfræðileg ritskýring ritninganna í
nútíma merkingu, en það voru mörkuð tímamót í sögu túlkunar fomra
texta og lagður gmndvöllur að þróun túlkunarfræðinnar, sem allt fram á
síðustu öld var borin uppi af guðfræðingum. Framlag Lúthers fólst í því,
að hann aðgreindi orðið annars vegar og útleggingu þess hins vegar.
Jafnframt setti hann sem og Calvin ritninguna yfir kenningarhefð
kirkjunnar og kennivald páfans. Það er því engin tilviljun, að þróun
fræðilegrar ritskýringar er borin uppi af guðfræðingum mótmælenda og
þá einkum í Þýzkalandi allt fram á okkar daga.
Gagnsiðbót rómversku kirkjunnar tók upp áherzluna á bókstaflega
merkingu textans, en þessi áherzla varaði ekki lengi. Óeiginleg eða
allegorisk útlegging varð þar aftur algeng. í kirkjum siðbótarmanna lifði
áfram áherzlan á innihald texta sem fyrirmynd þess, sem koma skyldi, og
fyrirmynd krismilífsins, en jafnframt var allegorisk útlegging tekin aftur
upp í nokkrum mæli.
Fommenntastefnan með áherzlu sinni á fomöldinni, grískunni og
upprunalegu heimildunum, var ein af mikilvægum forsendum
siðbótarinnar. Einn merkasti fylgjandi fommenntastefnunnar var
Erasmus frá Rotterdam, sem 1516 gaf út gríska texta Nýja testamentisins
með þýðingu á latínu og lagði þar með grandvöll að þýðingar- og
útleggingarstarfi siðbótarmanna. Siðbótarmennimir eins og Lúther lærðu
86