Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Blaðsíða 115
Sérkenni kristindómsins
íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og
heilagleika sannleikans (Ef. 4,22nn).
Tryggingin fyrir því að mönnum sé þetta kleift, er sú að maðurinn
hefur guðsandann í sjálfum sér. Hann hefur pant andans (II. Kor. 5,5,
1,22, Ef. 1,14), frumgróða andans, sem fullvissar hann um, að hann er
sonur Guðs (Ró. 8,23,15). Þeir sem tilheyra Jesú Kristi, eru frelsaðir af
lögmáli lífsins anda frá lögmáli syndarinnar og dauðans (Ró. 8,ln). Af
því þekkjum vér að vér erum stöðugir í Guði og Guð í oss, að hann hefur
gefið oss af anda sínum (I. Jóh. 4,13).
Sú skoðun virðist þó hafa verið fljótt ríkjandi í frumkristninni, að gjöf
andans veittist aðeins þeim, sem tilheyrðu söfnuðunum, og væri hún
bundin við skírnina. Kemur það fram í fyrstu ræðu Péturs (Post. 2,38 í
orðunum um laug endurfæðingarinnar og endurnýjunar heilags anda (Tít.
3,5) o.v. (I. Kor. 12,13, Jóh. 3,5: endurfæðast af vatni og anda). Þó
kemur fyrir að þess er getið, að þetta tvennt hafi ekki fylgst að (Post.
8,14nn, 10,44nn).
Sú kenning varð ofan á í kirkjunni, að gjöf andans væri bundin við
skírnina, eins og yfirleitt verkanir andans voru taldar bundnar við
sakramentin. Að vísu var meira talað um endurfæðingu í sambandi við
skírnina, en endurfæðingin sjálf var verk heilags anda.
Það er vitanlegt, að þessi kenning á enga stoð í kenningu Jesú. Jesús
setti sjálfur ekki fram neina kenningu um skírnina, og skírnin sem stofnun
frá hans hendi hefur enga stoð aðra en orðin í niðurlagi Matteusar-
guðspjalls, sem af textafræðingum er viðurkennd viðbót, og í niðurlagi
Markúsarguðspjalls, sem er enn augljósari viðbót. Enda segir Páll að
Kristur hefi ekki sent sig til að skíra, sem getur illa samrýmst skírnar-
boðinu í Mt (I. Kor. 1,17). Og skilyrðin sem Jesú talar um fyrir inngöngu
í guðsríkið, eru allt annars eðlis, eins og fyrr hefur verið rætt, en þau
eiga og hér við, þegar rætt er um gjöf andans því að hvað bindur annað.
Þetta sést og ljósar, þegar það er athugað, í hverju verkanir andans eru
fólgnar.
Það kemur sem sé í ljós, að þær eru einmitt fólgnar í þeim sömu
eiginleikum, sem Jesús telur skilyrði fyrir inngöngu í guðsríkið.
„Avöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild,
trúmennska, hógværð, bindindi” (Gal. 5,22, sbr. Kól. 3,12nn). Guðsríki
er „réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda” (Ró. 14,17). Að láta
leiðast af anda Guðs er að vera sonur Guðs (Ró. 8,14). Andi Guðs er andi
lífsins, hinn lífgandi andi (II. Kor. 3,6, sbr. Jóh. 6,63).
Og andinn er Hka andi sannleikans (Jóh. 14,17; 16,13). Hann leiðir í
allan sannleika, þ.e. veitir mönnum skilning á því, hver séu hin sönnu
verðmæti, hver sé hinn sanni veruleiki. Sannleikur og andi eru náskyld
hugtök á máli Jóhannesarritanna, því bæði tákna þann veruleika, sem er
utan hins sýnilega og forgengilega, þá tilveru, sem er hin raunverulega,
og þessi heimur, sem liggur í hinu illa, er aðeins dauf skuggamynd af
(sbr. I. Kor. 13,12). En sú hugsun er vitanlega mótuð af hinni platónsku
heimspeki.
113