Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Blaðsíða 117
Sérkenni kristindómsins
höfum vér fengið fullkomnasta ímynd guðdómsins, sem vér getum vænst
á þessu tilverustigi. Að Guðsandinn, sem verkar í Kristi, starfi einnig í
hverjum manni, segir, að maðurinn sé guðlegs eðlis, og að hann hafi
möguleika til þess samlífs við Guð, að hann geti orðið móttakandi þess lífs
frá Guði, sem er hinn dýpsti kjarni kristindómsins, eins og hann birtist í
mannlegu lífi. í næsta kafla mun ég gera grein fyrir því, hvernig
kristindómurinn verkar í hreinustu mynd sinni sem líf í Guði.
3. Líf í Guði
Kristindómurinn nær, eins og öll æðri guðstrú, hámarki sínu í samlífinu
við Guð. í því er bæði takmark hans og æðsta hvöt. Á þeim
grundvallaratriðum lífskoðunarinnar, að Guð sé höfundur og takmark
alls, að maðurinn sé guðlegrar ættar og að milli Guðs og manns geti verið
um andleg samskipti að ræða, byggist sú lífshugsjón, að maðurinn geti
orðið hluttakandi í hinni guðlegu veru, á ófullkominn hátt þegar í
jarðlífinu, á fullkomnari hátt í hinu andlega lífi, sem nái hámarld sínu í
því að vera hjá Guði, sjá hann og skynja á æðri hátt en dauðleg augu
megna, hljóta þátttöku í dýrð hans, fá að þekkja hann augliti til auglits
(sbr. I. Kor. 13,12, Jer. 31.33n). En um möguleika mannsins og aðferðir
til að ná þessu marki hafa leiðir skipst. Sumir eru sannfærðir um að hafa
þegar í þessu lífi komist til hinnar æðstu skynjunar guðdómsins, og
runnið saman við hann í dularfullri einingu. Það er mýstíkin, sem heldur,
því fram. Önnur er sú leiðin, að hljóta sameiningu við guðdóminn fyrir
kraft vissra helgiathafna. Það er leið sakramentanna, sem kirkja hefur á
valdi sínu. En hið þriðja er algengast, að einstaklingurinn eða hópur
einstaklinga leitast við að nálgast Guð og verða aðnjótandi áhrifa hans,
enda þótt hann sé sér þess meðvitandi að vera þess alls óverður að hljóta
fullkomna skynjun hans eða geta orðið eitt með honum í þessu lífi. Það er
leið bænarinnar. Mun nú verða vikið nánar að þessum þrem leiðum.
1) Mýstík
Hugtakið mýstík, sem táknað hefur verið á íslensku með dulspeki (Dr.
J.H. Kirkjusaga), táknar „þá aðferð, að komast í snertingu við
guðdóminn, undir bein áhrif hans og til þekkingar á leyndardómum hans
fyrir tilstilli helgiathafna, sem ekki eru hverjum manni skiljanlegar og
haldið er leyndum til að vernda þær gegn vanhelgun, og fyrir tilstilli
tilsvarandi sálarlífs-reynslu, (sem síðar er einnig laus við þær) sem ekki
getur orðið allra eign (RGG. IV. 335). Þetta er hin víðtækasta
skýrgreining hugtaksins, en venjulega er það notað í þrengri merkingu,
a.m.k. þegar um kristna mýstík er að ræða, þannig að sérstaklega er átt
við þá aðferð til að sameinast guðdóminum, sem fólgin er í innri reynslu
sálarlífsins, án þess að sérstakar helgiathafnir komi til greina. Þess vegna
er hér greint á milli hinnar mýstisku og hinnar sakramentölu aðferðar.
115