Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Blaðsíða 26
Bjöm Magnússon
hugmyndum, og hafi Páll ekki þurft annað en að fella nafn Jesú inn í það
fræðikerfi, sem þegar var til (Weinel; Paulus). Slík kenning stenst ekki
gagnrýni. Páll er í mörgum atriðum frumlegur í kenningum sínum um
Krist, og sá frumleiki er ekki sprottinn af heilabrotum, heldur af reynslu,
enda þótt það umhverfi, sem hann var runninn úr, hafi að sjálfsögðu sett
svip sinn á framsetningu hans.
Páll hefur það sameiginlegt með fyrstu kristnu söfnuðunum, að hann
prédikar fyrst og fremst hinn krossfesta og upprisna drottin Jesú Krist.
„Ég ásetti mér, að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist, og hann
krossfestan” (I.Kor. 2,2). Og mikið af prédikun hans snýst um það,
hvernig það geti staðist, að Messías skuli hafa orðið að líða kvalir og
smánardauða. En við Damaskus er eins og honum opnist skilningur á
þessu. Hann sér Krist í himneskum dýrðarljóma. Hann vissi upp frá því,
að Jesús var hinn fyrirheitni Messías. Og honum tókst að gera sér grein
fyrir þessu. ísraelsþjóðin hafði brugðist. Mannkynið, sem átti uppruna
sinn frá Adam, var fallið og spillt allt frá honum. Lögmálið hafði reynst
mönnunum um megn. Því varð Kristur að koma til að verða höfundur
nýs mannkyns, sem væri ekki undir lögmáli. En til þess að það mætti
verða, varð hann að kaupa það undan bölvun lögmálsins. Það gerði hann
með því að ganga sjálfur undir smánardauða. En fullkomnun þess verks
var þó upprisan og innganga hans til þeirrar dýrðar, sem hann hafði áður
búið í. „Þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu,
fæddan undir lögmáli, til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir
lögmáli svo að vér fengjum sonarréttinn” (Gal. 4,4). „En ef Kristur er
ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar” (I.
Kor. 15,17, sbr. Fil. 2,6-11). Fortilvera Krists, sem aðeins kemur óljós
fram frá fyrstu söfnuðunum, er orðin ákveðinn liður í kristfræði Páls.
Hann er í augum hans fyrst og fremst hinn guðlegi, dýrðlegi drottinn,
sem um stundarsakir gerðist fátækur vor vegna, svo að vér auðguðumst
af fátækt hans. Svo er talið af mörgum, að hér hafi Páll mótað skoðun
sína eftir austurlenskum goðsögnum um frummanninn, hina guðlegu
ljósveru, sem gengur í gegnum myrkur dauðans til þess að verða upphaf
nýs heims og nýs mannkyns. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt, að þessar
sagnir voru mjög útbreiddar með samtíð Páls (RGG . I. 1601, V. 1416).
Aðrir mæla á móti því að um nokkur slík áhrif sé að ræða hjá Páli. „Það
má örugglega fullyrða það, að hann notfærir sér engar hugmyndir, sem
ekki hafa sprottið upp af hans eigin reynslu af hinum upprisna Kristni, og
að hugsun hans stjórnast ekki af aðfengnu efni. Jafnvel þótt finna megi
hliðstæður við orðalag hans í hinni hellenistisku Spekibók og hinni
apokalyptisku Enoksbók, þá er það úr hvorugri þessari heimild, heldur af
heildarskilningi hans á Kristi í dýrðinni, sem hann hefur kenningu sína
um eilífa fortilveru sonarins. Sú kenning hafði fyrir honum sitt eigið,
sjálfstæða gildi, laust við grískt hugmyndaflug eða gyðinglega hugsun”
(Fairweather, bls, 320n, sbr. Mack. J.Chr. bls. 52, Bang, bls. 71nn,
einkum neðanmálsgreinina).
24