Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2013, Qupperneq 106
Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research (lceland) 10, 2013 104-122
Ritrýnd grein
Samskipti ungs fólks í
f j ölmenningarsamf élagi
Hanna Ragnarsdóttir og Halla Jónsdóttir'
Háskóli íslands
í greininni er fjallað um niðurstöður fyrri hluta rannsóknar á lífsviðhorfum og lífsgildum
ungs fólks í íslensku fjölmenningarsamfélagi. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að
rannsaka lífsviðhorf og lífsgildi ungs fólks (18-24 ára) í íslensku samfélagi. Breið fræðileg
umgjörð er um rannsóknina og er hún byggð á þverfaglegri nálgun, þar sem m.a. er leitað
til félagsfræði, trúaruppeldisfræði, fjölmenningarfræði og uppeldisfræði. Aðferðir eru
blandaðar, megindlegar og eigindlegar. Fyrri hluti rannsóknarinnar, sem fjallað er um í
greininni, er megindleg rannsókn, þ.e. viðhorfakönnun sem Iögð var fyrir 904 nemendur
í alls sjö framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni haustið 2011 og
vorið 2012. 89,15% svarenda eiga báða foreldra íslenska en aðrir eiga annað eða báða
foreldra erlenda. Könnunin tók m. a. til þátta sem snerta sjálfsmynd, fjölskyldu, vini,
einelti, trúarbrögð og ólíkan uppruna. Markmið greinarinnar er að fjalla um þær niður-
stöður úr viðhorfakönnuninni sem snúa að margbreytileika og samskiptum, viðhorfum
til fjöimenningarsamfélagsins, uppruna, tungumálum og trúarbrögðum, svo og viðhorf-
um til eigin styrks og eineltis. Umfjöllunin er byggð á lýsandi tölfræði úr þeim hluta. í
niðurstöðum kemur fram að þátttakendur eru almennt jákvæðir gagnvart fjölbreytileika
samfélagsins. Mikill meirihluti svarenda telur lærdómsríkt að eiga vini af ólíkum upp-
runa, telur sjálfsagt að taka tillit tii ólíkra hefða fólks eftir menningu og trú og gefandi
að umgangast fólk sem hefur aðrar skoðanir. Stór hiuti svarenda tekur jafnframt mjög
ákveðna afstöðu gegn kynþáttafordómum. Viðhorf unga fólksins endurspegla almennt
jákvæð viðhorf til margbreytileikans, ákveðna sýn varðandi einelti og nokkurt öryggi um
sína stöðu í féiagamenningunni.
Hagnýtt gildi Rannsóknarverkefnið sem greinin er byggð á miðar að því að auka þekkingu
á lífsviðhorfum og lífsgildum ungs fólks í nútíma fjölmenningarsamfélagi. Þekking á þessu
sviði er gagnleg fyrir frekari umræður um sjálfsskilning, líðan og félagslega og siöferðilega
hæfni ungs fólks. Niðurstöður munu einnig nýtast í þróun skólastarfs, á sviðum lífsleikni,
borgaravitundar, fjölmenningarfræði og trúarbragðafræði.
'Rannsóknin er styrkt af Rannsóknarsjóði HÍ.
104