Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 14
14 TMM 2008 · 2
A ð a l b j ö r g B r a g a d ó t t i r
umræðuefnið og lesandinn kemst ekki hjá því að fræðast um handritið.
Og það skapast örfín kaldhæðni þegar persónur bókarinnar breyta eins
og áður fordæmdir fornmenn en í nafni Flateyjarbókar. Með textatengsl-
unum koma einnig fram annars konar glæpir og hugtakið „glæpasaga“
víkkar þegar teknir eru með glæpir fortíðarinnar. Önnur gáta en morð-
málin verður til með hliðarsögunni og hún verður eins konar gestaþraut
fyrir lesendur. Sagan verður aðgengilegri fleiri kynslóðum og textabrot-
in bjóða upp á umræður. Þannig ætti sagan að höfða jafnt til bók-
menntasnobbara sem falla fyrir því að forn bókmennta- og fagurfræði-
legur texti liggi til grundvallar morðmáli, og hinna sem kjósa hreinar
afþreyingarbókmenntir. Það var markaðslega sniðugt hjá Viktori Arnari
að ná svo víðum lesendahópi, en einnig snjallt upp á menningarlega vit-
und og fræðslu um þjóðararfinn.
Spegill nútímans
Flestir eru sammála um að glæpasögur séu eins konar speglar á sam-
félag samtímans.14 Þær fela í sér ádeilu því þær kafa í undirheima mann-
lífsins og skoða myrkar hliðar mannskepnunnar. Í glæpasögunni eru öll
umfjöllunarefni leyfileg, sama hversu viðkvæm þau eru. Með því að láta
sögu gerast í ákveðinni fortíð skapast samanburður við rauntíma les-
andans sem ósjálfrátt ber söguna og sögupersónur saman við sig og
sína. Innri tími Flateyjargátu er átta dagar í byrjun júnímánaðar árið
1960, en hún skoðar einnig fortíð ýmissa sögupersóna, auk þess að fjalla
á vissan hátt um tímabil Flateyjarbókar.
Talsverð ádeila og samfélagsrýni á nútímann er í bókinni og ber þá
fyrst að nefna glæpina. Glæpir Bryngeirs gagnvart Jóhönnu eru þagg-
aðir niður af lögreglunni. Ofbeldi innan veggja heimilisins hefur við-
gengist í aldaraðir en það er ekki fyrr en á síðustu árum sem umræða
um þá hefur komist upp á yfirborðið. Það að Jóhanna brýtur af sér
hlekki fortíðarinnar vísar til samtímans þar sem bæði konur og karlar
hafa rofið þögnina og hafið umræður um þennan glæp. Annað, eins og
slysið sem Gaston Lund lendir í, er einnig til umræðu nú á dögum.
Hrörnunarsjúkdómar og elliglöp hafa orðið meira áberandi þar sem
umræðan er orðin opnari. Reynt er að stemma stigu við slysum sem
hljótast af öldrun og sinna öldruðum betur, en það er erfitt í samfélagi
sem er upptekið af æsku- og útlitsdýrkun.
Viktor Arnar ræðir líka flutning úr litlum plássum í stærri byggðir.
Samfélagið í Flatey um 1960 fór minnkandi dag frá degi. Sami brott-
flutningur af landsbyggðinni stendur enn nú árið 2008. Einstakar jarðir