Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 74
74 TMM 2008 · 2
B r a g i Þ o r g r í m u r Ó l a f s s o n
Það liggur í augum uppi, að slík bók hljóti að spilla hjörtum hinna ýngri, og deyfa
tilfinningu þeirra fyrir velsæmi og fegurð. Það getur ekki hjá því farið, að þau
festist í minni og taki sér síðan í munn klámyrði þau og fúkyrði, sem bók þessi
er svo auðug af […]6
Hinn ónafngreindi höfundur taldi jafnframt ábyrgðarlaust að gefa
almenningi tækifæri á að lesa þessa bók „með þessari viðbjóðslegu lýs-
ingu lasta og ódyggða í hinni viðurstyggilegustu nekt þeirra“.7 Þó að
ýmsir hafi greinilega talið Felsenborgarsögur vera hinar verstu bók-
menntir, má benda á að sögurnar voru til hér í handritum áður en
Grímur gaf þær út á prenti.8 Klemens Jónsson (1862–1930) áleit löngu
síðar að útgáfa Felsenborgarsagna hafi rýrt mjög álit manna á prent-
smiðjunni á Akureyri, enda voru sögurnar að hans mati „einhver aum-
asti reyfararóman, saminn á 18. öld og eiginlega ekkert annað en klám;
hafði aldrei birzt fyrr á íslenzka tungu annað eins rit.“9 Við þetta má
bæta að árið 1956 voru Felsenborgarsögur gefnar út aftur. Í formála
útgefanda segir að sögurnar séu meðal allra fágætustu bóka frá nítj-
ándu öld, enda hafi þær gengið mann fram af manni og komin í blöð
og jafnvel í tætlur. Oft hafi komist til tals að það þyrfti að gefa bókina
út á ný!
Ritgerðaskrif um skaðsemi rómana
Ekki er ósennilegt að kennarar í Lærða skólanum hafi fylgst með
umræðunni um Felsenborgarsögur í Þjóðólfi og Norðra, því á sama
tíma og menn voru að hneykslast þar á útgáfu bókarinnar áttu skóla-
piltar að skrifa ritgerð um mögulega skaðsemi rómana. Slíkar bók-
menntir voru ekki hátt skrifaðar meðal kennara skólans. Páll Melsteð
sögukennari (1812–1910), segir sem dæmi í æviminningum sínum að
hann telji það sér til lofs að á námsárum sínum hafi hann eingöngu lesið
„það, sem eg vissi vera eftir góða rithöfunda, en forðaðist hina, sem eg
heyrði um sagt að spiltu siðferðinu, og heyrða eg helzt til nefnda frakk-
neska rómanahöfunda.“10
Í ritgerðum skólapiltanna áttu þeir að fjalla um möguleg not sem
mátti hafa af lestri skemmtisagna („romaner“) og jafnframt að tilgreina
hvað illt gæti leitt af lestri slíkra rita. Skólapiltarnir skrifuðu ritgerðirnar
eflaust með óskir kennara í huga, enda vildu þeir ná sem bestri einkunn
fyrir þær. Þannig bregða þær birtu á viðhorf sem þeir – sem verðandi
embættismenn og forystumenn þjóðarinnar – ættu að hafa gagnvart
slíkum ritum.