Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 122
B ó k m e n n t i r
122 TMM 2008 · 2
kemur í ljós að Þórbergur var ekki allur þar sem hann var séður, og ýmislegt
hefur komið upp úr kafinu sem kemur ekki alveg heim við sjálfsmynd bóka
hans. Þar sést til dæmis að hann hefur átt í allnokkrum ástarævintýrum sem
koma ekki öldungis heim við hinn uppburðarlausa sveimhuga úr Íslenskum
aðli og Ofvitanum. Sigfús Daðason benti á það eftir útkomu Bréfa til Sólu 1983
að bréfin vektu nýjar spurningar um líf og innri mann Þórbergs: „í þessum
bréfum kemur í ljós maður sem virðist í fljótu bragði töluvert ólíkur þeim
Þórbergi sem lesendur þekkja af öðrum ritum hans frá svipuðum tíma“. Það
skortir talsvert á hingað til að menn hafi brugðist við þessari ögrun og skoðað
Þórberg algerlega upp á nýtt.
Þórbergur Þórðarson er aðalpersóna í flestum skáldverkum sínum, og það
sem meira er, hann rekur raunverulega atburði svo nákvæmlega að nær
ómögulegt er að hanka hann á staðreyndavillum. Síðar hefur verið leitt í ljós að
atburðum er hliðrað til hér og þar og drættirnir í persónulýsingunni ýktir í
þágu líflegri og skoplegri frásagnar. En persónulýsingin var svo snjöll að les-
endur gleyptu hana með húð og hári og heimfærðu upp á höfundinn. Persónan
varð aðalatriðið, frásagnargaldurinn hvarf í skuggann. Ritdómar drógu dám af
þessari ímynd mannsins í verkinu. Það er engu líkara en að Bréf til Láru hafi
verið síðasta verk Þórbergs sem menn tóku alvarlega sem listaverk. Þórbergur
gaf þessu vissulega sjálfur undir fótinn með skringilegu háttalagi og spéskap
sem til dæmis má sjá í frásögnum Péturs af uppákomum í Mjólkurfélagi heil-
agra. Þó vekur furðu að sjá af útgefnum bréfaköflum að útgefandi Þórbergs,
Ragnar í Smára, áleit hann ekkert annað en hégómlegan einfeldning og trúð.
En að hve miklu leyti var þessi framkoma honum eiginleg og að hve miklu leyti
beitti hann henni sem skildi gagnvart umhverfinu?
Bollaleggingar hafa verið uppi um það að Þórbergur hafi verið með Asper-
ger-heilkenni. Af bernskuminningunum sést að margnefndar „áráttur“ Þór-
bergs spretta af óvenjulegum hæfileikum hans og hneigð til vísindaiðkana þar
sem hann gerir merkilegar uppgötvanir við þröngar og frumstæðar aðstæður.
Hinar nákvæmu veðurathuganir hans og mælingar hvers konar síðar á ævinni
eru vafalaust angi af því sama, tilraunir til að átta sig í veröldinni. Það má
örugglega finna nærtækari skýringu á því að Þórbergur tók saman við Mar-
gréti Jónsdóttur en að þar sé dæmigerður Aspergerkarl að leita að móður til að
ráðskast með sig. Auk þess mætti leiða fram aðra vitnisburði sem eru andstæð-
ir þessari skilgreiningu, svo sem eins og ummæli Einars Braga: „Um Þórberg
Þórðarson get ég vitnað að hann var í allri framgöngu einhver eðlilegasti og
látlausasti maður sem ég hef kynnst.“ Svipað hafa margir nánir vinir Þórbergs
sagt.
Bók Péturs lýkur þar sem Þórbergur er kominn í Suðursveit sem gestur eftir
aldarfjórðung, nýkvæntur, á leið suður aftur yfir beljandi straumvötnin. Hér
kemur sambandið við heimahagana við sögu í fyrsta sinn. Lýsing Þórbergs á
fjallasýninni í frásögninni „Vatnadagurinn mikli“ minnir Pétur á Gunnars-
hólma, en áin er ekki Markarfljót heldur Skeiðará, og Þórbergur er að kveðja
heimahagana, sem þó eiga rík ítök í huga hans.