Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 82
82 TMM 2008 · 2
B r a g i Þ o r g r í m u r Ó l a f s s o n
ir væru stórhættulegar fyrir menningu og siðgæði þjóðarinnar og benti
á að hann þekkti dæmi þess erlendis að ungir menn hefðu hreinlega
leiðst út í afbrot með sögupersónur rómana sem fyrirmynd.41 Jóhann
svaraði Jónasi í grein sem birtist í Þjóðólfi þar sem hann sagðist hafa
þurft að líða margar árásir á hendur sér vegna þessara bóka og að Bók-
salafélagið hefði jafnvel gert tilraun til að hefta sölu bóka hans, en hann
taldi sjálfur að ekkert væri athugavert við bókaútgáfu sína.42 Jónas svar-
aði greininni í Ingólfi 3. febrúar43 og hélt líka erindi um lestur bóka hjá
Ungmennafélagi Reykjavíkur nokkrum vikum síðar. Á fundinum ræddi
hann um það hve slæm áhrif rómanar gætu haft á hugarfar lesenda og
þá sérstaklega barna og taldi það verkefni fyrir ungmennafélög landsins
að reyna að hamla gegn útbreiðslu slíkra bókmennta. Fundarmenn voru
sammála Jónasi og álitu nauðsynlegt að sporna við þessari útbreiðslu og
jafnframt að reyna að útrýma þeim bókum sem höfðu þegar náð
útbreiðslu meðal þjóðarinnar.44
Litið um öxl
Þegar litið er á umræðuna um lestur rómana á Íslandi á síðari hluta 19.
aldar má greina nokkra meginþætti. Um miðja öldina má taka sérstak-
lega eftir hinni miklu trú sem menn höfðu á áhrifamætti prentaðra rita.
Talið var að prentsmiðjur og ritstjórar bæru mikla ábyrgð, þeir mættu
ekki hleypa óæskilegum ritum út í samfélagið og „spilla þannig hugs-
unarhætti almennings“, eins og áður var vitnað til. Hér má hafa í huga
að fram eftir öldum hafði bókaútgáfa á Íslandi verið í höndum kirkj-
unnar og lengi var langmest af því sem prentað var af guðfræðilegum
eða lagalegum toga. Nokkuð bar því á þeirri trú fram eftir 19. öld að
menn teldu allt satt og rétt sem birtist á prenti; því var talið nauðsynlegt
að fara varlega með boðskap prentmiðla, enda öflugur miðill.45 Þegar
líður á seinni hluta aldarinnar og prentuðum bókum fjölgar til muna,
fer umræðan að snúast meira um hin illu áhrif sem erlendir rómanar
gætu haft á ungt fólk. Sumir héldu því fram að lesendur gætu leiðst út á
slæmar brautir ef boðskapur rómananna væri tekinn til fyrirmyndar og
að lestur þeirra myndi leiða til leti og iðjuleysis. Um aldamótin 1900
breytist umræðan nokkuð og fer einkum að snúast um íslenskt þjóðerni
og varðveislu þess gagnvart óæskilegum erlendum áhrifum sem finna
mátti í þýddum rómönum.46
Í umræðunni má einnig greina ákveðið viðhorf til sjálfræðis einstakl-
inga á tímum þegar íslenskt samfélag var á breytingarskeiði – þéttbýlis-
myndun, afnám vistarbands, vesturferðir, efling sjávarútvegs, lausa-