Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 47
TMM 2008 · 2 47
B r é f t i l M á l f r í ð a r
andi, hreinni en með sterkum íslenskum hreim, líkum mínum. Sjónin
er næstum horfin, allt er á fallanda fæti, skapið myrkt og dapurt. Vind-
ur og öldur belja við klettana ekki langt frá glugganum, þunglega
þunglega, dökkar og kaldar …“ og síðan: „Vertu sæl og leyfðu mér að
heyra frá þér aftur, helst miklu oftar. Fyrirgefðu skapið og slæma skrift.
Málfríður.“
Ég fyrirgef Málfríður mín allt sem þú gerðir eða gerðir ekki, og vissulega
rithöndina sem í dag kemur mér til að gráta. En hér er ég og þú ert farin.
Ég skrifaði aldrei, ekki nógu fljótt, ekki nógu oft. Ég þekkti þig ekki
nógu vel og hugsaði ekki nógu oft til þín. Í dag man ég, en ekki greini-
lega. Fyrirgefðu mér Málfríður, ég vissi ekki að þú myndir deyja.
Þú varst ljúft undirspil í huga mér. Þínir tónar, töfrar sem ég man. Ég
man æsku mína, sársaukafulla, ástríðuþrungna æsku, og hendur lista-
mannsins, og hvernig hár hans féll yfir ennið þegar hann var 26 ára. Ég
man Ísland, hrjóstruga og forna fegurð þess, forna þjóð, birtu og veður.
Gullfoss, beljandi og voldugan, græn og mjúk svæði Þingvalla, sjóðandi
gula brennisteinshveri og viðkvæma hraunskorpu, volga úr iðrum jarð-
ar – eða ef til vill frá helvíti. Og herstöðina í Keflavík, útvörð heimsins,
harðneskjulega, tímabundna, og átti illa við menn haldna heimþrá,
kvensama menn sem höfðu fremur áhuga á framtíð en fortíð. Ég man
jazztaktinn sem nú er hluti af hjartslætti mínum. Ég man líka tónlist
íslenskrar tungu og sögurnar af þeim lifandi og dauðu, heimi drauga og
anda sem ekki allir vita af. Ég man haust og vetrarnætur þegar norð-
urljósin drógu bylgjandi tjöld yfir himininn og skildu mig eftir mátt-
lausa með sársauka í hjartanu, því svo mikil fegurð kallaði á jafnmikla
lotningu og of heit ást. Ég man mild litbrigði og liti, ljós og blæbrigði
norðlægs landslags og himin sem eitt augnablik virtist gefa mér sýn í ást
og himnaríki, horfin sýn en ekki gleymd.
Og ég man Málfríði og Guðjón … pönnukökur, súpur og kássur,
samræður og skáldskap, drauga og hlátur. Kæra íslenska norn sem
auðgaðir líf mitt með bréfum þínum, sem hvattir mig til að skrifa þér …
til að skrifa. Skrifa?
Ef þú ert einhvers staðar Málfríður þá hlærðu þetta desemberkvöld:
„Of seint, of seint,“ hneggjar þú, „en ekki alveg of seint.“ Og þú sendir
mér kæra kveðju með tunglinu þar sem það skín í norðaustri, hæst á
himni, og þú ásækir mig einnig af kærleik þar til ég skrifa, skrifa,
skrifa.
Friður sé með þér, Málfríður mín. Friður og þökk.