Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 104
104 TMM 2008 · 2
L e i k l i s t
Arndís Þórarinsdóttir
„Ný byrjun. Nýtt líf. Sama fíflið“
Tvær útfærslur á sama verki: leiksýningin Ívanov
og kvikmyndin Brúðguminn
„Markmið mitt er að drepa tvær flugur í einu höggi – að sýna lífið í sínum
réttu litum, og að varpa á það ljósi hversu óralangt þetta líf er frá því að vera
hið fullkomna líf,“1 sagði Anton Tsjekhov í bréfi til vinar síns árið sem Ívanov,
fyrsta verk hans í fullri lengd, var frumsýnt. Sjálfur mat hann það svo, í öðru
bréfi, að þetta markmið hefði reyndar mistekist í þessari fyrstu tilraun:
Ég átti mér þann fífldjarfa draum að draga saman allt sem hefur verið skrifað til
þessa um hvumpið, örvilnað fólk og láta hann Ívanov minn binda enda á slík skrif
… Grunnhugmynd mín um verkið fór nálægt því að takast þetta, en útfærslan er
einskis virði. Ég hefði betur beðið!2
Engu að síður varð verkið, sem vakti leikskáldinu svo mikið óyndi, fyrir vali
Baltasars Kormáks, þegar hann ákvað að takast á við sagnameistarann rússn-
eska á fjölum Þjóðleikhússins undir lok ársins 2007, og frumsýna um sama
leyti aðra nálgun á sama verk, unna með sömu listamönnum, á hvíta tjaldinu.
Baltasar vann handritin tvö í félagi við Ólaf Egil Egilsson og fékk til liðs við sig
marga af fremstu listamönnum þjóðarinnar.
Tsjekhov var þegar orðinn virtur smásagnahöfundur og hafði fágað þau höf-
undareinkenni sem enn halda nafni hans á lofti, en eðli málsins samkvæmt
voru tól leikhússins honum ekki enn töm þegar hann féllst á að skrifa gam-
anleik fyrir leikhús í Moskvu árið 1887. Hann ákvað að skrifa verk sem stefnt
var gegn þeirri listrænu lágkúru sem honum fannst tröllríða rússnesku leik-
húsi. Hann var þreyttur á leiklist sem líktist ekkert raunveruleikanum, hann
var þreyttur á að sjá alltaf sömu manngerðirnar á sviðinu: ríkt fólk emjandi af
depurð og sjálfsvorkunn. Hann ætlaði að skrifa raunsætt leikrit og Ívanov átti
að vera ádeila á fyrirrennara sína á sviðinu: aðdáunarverður maður, þrátt fyrir
grunngalla sína. Það má lesa út úr skrifum bæði skáldsins og annarra að ekki
tókst að miðla þessari hugmynd í fyrstu uppfærslu verksins.
Leikhúsgestir voru óvenjulega tvískiptir í afstöðu sinni til sýningarinnar á