Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 60
60 TMM 2008 · 2
M a g n ú s K a r l P é t u r s s o n
Herbergið mitt sneri út að götunni og í því var engin upphitun.
Gluggarnir voru tvöfaldir en ákaflega lélegir og blés inn um þá þegar
hvasst var og vatn fraus í gluggakistum um veturinn. Í morgunverð var
brauðsnúður og kaffi milli kl. átta og níu en hádegismatur kl. tvö, kjöt,
súpa, fiskur eða brauð og einhver drykkjarföng með. Kvöldverður var
snæddur um tíuleytið. Þá var sest að stóru þykku hringborði en undir
því miðju var stórt koparfat sem Spánverjar kalla brazero. Þetta fat var
fyllt með glóandi kolum eða koksi. Yfir borðið var síðan breiddur þykk-
ur dúkur sem náði niður á gólf. Síðan settust allir hringinn í kringum
borðið en þjónustustúlka bar fram matinn. Hún borðaði ekki með
okkur heldur í eldhúsinu. Fæturnir voru síðan settir undir dúkinn og
við þetta sjóðhitnaði allur líkaminn. Þarna var svo setið og snætt og
talað saman þar til farið var í háttinn. Þetta var ákaflega notalegt og rætt
um heima og geima, allt nema spænska pólitík. Spánverjarnir vildu hins
vegar gjarnan vita eitthvað um íslenska pólitík. Þeir áttu að vísu erfitt
með að átta sig á hvar Ísland væri og rugluðu því gjarnan saman við
Írland, en ég reyndi að leiðrétta þann misskilning. Þeir sem þó vissu
hvar Ísland var héldu að landið væri þakið snjó og hér byggju Eskimóar.
Þeim líkaði vel að heyra um lýðræðisfyrirkomulagið á Íslandi og höfðu
mikinn áhuga á því, svo sem kosningum, en það þýddi ekkert að tala um
spænsku stjórnina, þá hristu þeir bara höfuðið. Venjulega var farið að
sofa um miðnættið en þá hljómaði spænski þjóðsöngurinn í útvarpinu
eftir að þulurinn lauk dagskránni með „Arriba España“ og „Viva
Franco“.
Einum Spánverja kynntumst við þó sem hægt var að tala við um
pólitík. Hann var falangisti en því miður man ég ekki lengur hvað hann
hét. Hann var vel heima í spænskum stjórnmálum og sannfærður um
gildi falangismans fyrir Spán. Við vorum óhræddir að tala við hann um
stjórnmálaástandið á Spáni og aldrei urðu nein eftirmál varðandi það
sem við ræddum. Þessi félagi okkar sagði best að lýsa falangista þannig
að hann væri hálfur prestur og hálfur hermaður. Kristin trú, þjóðern-
ishyggja og trú á einveldi en ekki frjálsar kosningar einkenndu Falang-
istahreyfinguna.
Falangistahreyfingin spilaði stóra rullu í upphafi borgarastyrjald-
arinnar og á fyrstu árunum eftir að henni lauk, en þegar hér var komið
sögu var hún farin að missa áhrif sín. Falangistar voru þó enn áberandi
í þjóðlífinu.
Falangistahreyfingunni svipaði um margt til sambærilegra hreyfinga
í Evrópu, fasistahreyfingar Mússolínis og nasistaflokksins. Þeir trúðu á
einveldi en ekki endilega á konungsveldi og voru miklir þjóðernissinnar.