Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 107
TMM 2008 · 2 107
L e i k l i s t
fyrir hann. Þannig veldur Anna óviljandi dauða ástarinnar, en Jón gerir illt
verra, leggur sér hana beinlínis til munns. Glæpur hans í málinu er líka fram-
inn óafvitandi, en þó að einhverju leyti verðskuldað. Ástin er því í raun þegar
uppurin þegar hjónin flytjast búferlum til Flateyjar í von um að byrja nýtt líf.
Þau eru bæði sek, en hafa bæði nokkuð sér til málsbóta.
Við upphaf kvikmyndarinnar sjáum við Jón fjalla um leikritið Ívanov í
kennslustund og verja gjörðir titilpersónunnar. Hann segir Ívanov klárlega líta
svo á að hann sé í lífshættu, og þegar mannslíf sé í húfi sé allt réttlætanlegt.
Sjálfur virðist hann trúa því að hann sé dæmdur maður, fastur í hjónabandi
sem hamlar honum. „Þetta lagast ekkert, hún er kannski skárri í smá tíma, en
svo fer það bara í sama farið aftur,“ segir hann um Önnu við konuna sem verð-
ur síðar seinni eiginkona hans, og stynur þungan.
Sennilega hefði Tsjekhov flissað, hefði hann séð endinn á Brúðgumanum. Í
stað þess að aðalpersónan fargi sér, yfirbuguð af sektarkennd, lætur Jón undan
kröfum heitmeyjar sinnar og hefur með henni nýtt líf – sem reynist svo vera
nákvæmlega sama lífið og forðum. Sama starf, sama íbúð – önnur kelling. Þar
með reynist tengdamóðir hans forspá, því strax við upphaf myndarinnar segir
hún dóttur sinni að hún sé „bara að ganga inn í hans gamla líf,“ í von um að telja
hana ofan af giftingunni. Þessi sögulok eru mun írónískari og skemmtilegri en
skothvellurinn, og öll hin fyrri atburðarás verður grátlega tilgangslítil.
Kannski er það til marks um ákveðnar takmarkanir að eiga svo miklu auðveld-
ara með að samsama sig klípu Jóns í Flatey en klípu Ívanovs frá þarsíðustu öld, í
rússneskri sveit. En myndin er betri en leiksýningin því í myndinni er gert grín að
melódramanu sem þar vindur fram, á sviðinu veltu leikararnir sér aftur á móti upp
úr því. Með því að blanda kómík við harmleikinn verða örlögin sem persónurnar
skapa sér kaldhæðnislegri. Á hvíta tjaldinu varð ætlun höfundar að veruleika,
miklu frekar en á sviðinu, og þó það sé kunnara en frá þurfi að segja að ætlun höf-
undar sé öllum málum óviðkomandi, þá held ég að sagan sem Tsjekhov ætlaði að
skrifa hafi verið áhugaverðari en sú sem hann á endanum kom á blað.
Tilvísanir
1 Borny, Geoffrey. 2006. Interpreting Chekhov, bls. 101. Canberra, Australian
National University E Press. Þar er vitnað í bréf Tsjekhovs til A.N. Pleshcheyev,
9. apríl 1889, eins og það birtist á bls. 150 í bók Josephson The Personal Papers of
Anton Chekhov, Lear, New York 1948. Þýtt úr ensku af AÞ.
2 Sama rit bls. 110, þar sem er vitnað í bréf Tsjekhovs til A. S. Suvorín, 7. janúar 1889,
eins og það birtist á bls. 84 í bók Karlinsky, S. og Heim, M. H., Anton Chekhov’s Life
and Thought, University of California Press, Berkley, 1975. Þýtt úr ensku af AÞ.
3 Kristrún Heiða Hauksdóttir. 2007. „Miðlarnir næra hvor annan,“ viðtal við
Baltasar Kormák í leikskrá Ívanovs.
4 Borny, Geoffrey. 2006. Interpreting Chekhov, bls. 114, þar sem er vitnað í bréf
Tsjekhovs til A. S. Suvorín, 30. desember 1888, eins og það birtist á bls 142 í fyrr-
nefndri Anton Chekhov’s Life and Thought. Þýtt úr ensku af AÞ.