Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 106
106 TMM 2008 · 2
L e i k l i s t
Margt líkt með skyldum
Margir þættir urðu til þess að kvikmyndin heppnaðist jafnvel og raun bar vitni
og einkum hvað sagan gerði sig vel í íslenskum nútíma. Fátæki óðalsbóndinn
Ívanov er orðinn að háskólakennaranum Jóni – heppileg speglun, þar sem
báðir eru í virðingarstöðu sem þó færir þeim ekki umtalsverð veraldleg gæði.
Svo tókst handritshöfundum að fanga bæði feigð berklanna og fordómana sem
fylgdu gyðingdómnum með því að láta Önnu nútímans kljást við geðsjúkdóm.
Þannig er líka hægt að komast hjá breyttum hefðum hjónabandsins á vorum
dögum – engar spurningar vakna um það af hverju blessað fólkið skilur ekki,
úr því það er svona óhamingjusamt. Allir sjá hve ómögulegt það er fyrir þau
bæði að yfirgefa hitt meðan svona stendur á.
Læknirinn er orðinn prestur og okurlánararnir Lebedev hjónin eru orðin að
smáborgaralegum, miðaldra kráareigendum. Speglunin er þó ekki algjör – til
dæmis er samband Jóns við besta vin sinn nokkuð annað en samband Ívanovs við
greifann, þó að leikaraval og fleira bendi til þess að þar eigi að vera hliðstæða.
Mikilvægasta breytingin er sú að í Brúðgumanum er ekki hikað við að hæð-
ast að þeim vandræðum sem Jón skapar sér – sem hefur þau áhrif að þau virð-
ast ósköp hjákátleg. Vel heppnuð notkun á kómík gerir harmleikinn sem í
verkinu leynist ennþá sárari: hann verður í senn tilgangslaus og óumflýjanleg-
ur. Með því að draga úr melódramanu eykst raunsæið, sem leikskáldinu var
svo annt um. Jafnframt er í kvikmynduðu útgáfunni augljósara en á sviðinu af
hverju öllum þykir einsýnt að Jón/Ívanov sé afburðamaður – allur sjarmi sem
persónan er gædd drukknaði í eymdarvæli á sviðinu.
Sagan sem sögð er í Brúðgumanum hefst aðeins fyrr en sú sem sögð er í
Ívanov. Í texta Tsjekhovs er Ívanov þegar búinn að afskrifa konu sína sem
áhugaverðan félagsskap, en Jón í Brúðgumanum er enn að reyna að láta hlutina
ganga upp með konu sinni – að minnsta kosti að nafninu til. Þó sjáum við fljótt
að Jón er orðinn langþreyttur á henni og talar stöðugt niður til hennar.
Persónusköpun Jóns er með nokkuð öðrum hætti en Ívanovs. Tsjekhov var
annt um að Ívanov skæri sig frá öðrum eintökum sömu erkitýpu að því leyti að
hann gerði sér grein fyrir ástandi sínu – að hann vissi að hann væri að breyta
rangt, en reyndi ekki að finna ytri orsakir gjörða sinna, heldur tæki á þeim
fulla ábyrgð. Jón er ekki þannig. Hann gerir sér litla grein fyrir því hvernig
hann kemur fram við Önnu, og virðist kenna henni um það hvernig fyrir þeim
er komið. Að vísu upplifir hann sektarkennd gagnvart ungu stúlkunni, Þóru,
eftir dauða Önnu, og hann er ekki algjörlega blindur á eigin galla, eins og sjá
má á orðunum sem hann hefur um sjálfan sig, aðfaranótt brúðkaupsins: „Nýtt
líf. Ný byrjun. Sama fíflið,“ en í þeim felst engin ábyrgð.
Myndin hefst á því að Anna keyrir á svan sem lifir áreksturinn ekki af. Í
miklu uppnámi reynir hún að ná sambandi við Jón, sem hefur engan áhuga á
málinu. Hér er kjörið tækifæri til að leggjast í táknatúlkun! Svanurinn er oft
tákn fyrir ástina, enda eru svanir einkvænisfuglar og ákaflega tryggar skepnur.
Anna hefnir sín á bónda sínum með því að matreiða svaninn og bera á borð