Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 54
54 TMM 2008 · 2
S t e fá n S i g u r k a r l s s o n
Úr dýralækningunum lá leið mín yfir í tannlækningar, enda héraðið
tannlæknislaust. Reynsla mín af þeirri atvinnugrein var þó endaslepp,
bundin við eitt atvik. Þannig var að Pétur Palla kemur í apótekið einn
laugardagsmorgun og segist vera að drepast úr tannpínu, sem hefði
raunar byrjað úti í Póllandi, en Pétur var sjómaður á millilandaskipum.
Hann fær magnýltöflur, og jafnframt spyr ég hvort hola sé í tönninni.
Hann opnar munninn og allir gátu séð að hann var með stóra holu í
jaxli í neðri góm. Ég lét hann því fá svokallað Anodynum til viðbótar,
harpixupplausn með fenóli út í, ætluð til þess að væta baðmull sem síðan
var troðið í tönnina. Um hádegisbilið kemur Pétur aftur og segir að
bómullin hafi dottið úr og tannpínan sé jafnvel verri en áður. Þrautaráð
í tilvikum sem þessum hafði löngum verið að biðja lækninn að draga úr
sér tannpínutönnina, en einhvernveginn fannst mér það ótækt, og
hvernig sem á því stóð kviknar aftur á ljósaskilti í kollinum á mér, og nú
stendur þar orðið „sínkevgenólat.“ Það er hvíta gumsið með negulnagla-
lyktinni sem tannlæknar notuðu oft í bráðabirgðafyllingar. „Komdu
aftur, komdu eftir lokun, svona um tvö leytið,“ segi ég við Pétur. Og á
tilteknum tíma hringir hann bjöllunni. Ég fæ honum sæti á stól á bak
við og læt hann opna munninn. Síðan skef ég sem best ég get upp úr
tönninni með litlum hníf. Þessu næst útbjó ég mér kítti úr sínkoxíði og
evgenóli og klessi í holuna. Pétri virtist létta við þetta, en ég segi: „Þetta
er bara til bráðabirgða. Þú þarft svo að drífa þig suður og láta gera við
tannskemmdina.“ Pétur tók upp veski sitt, en ég sagðist ekki vera neinn
tannlæknir og hvatti hann enn og aftur til þess að fara suður og láta gera
við tönnina.
Næstu tvö árin hafði ég engar spurnir af Pétri, en einn góðan veður-
dag birtist hann í apótekinu.
„Jæja, hvernig gekk með tönnina?“ spyr ég.
„Ágætlega,“ svarar hann.
„Já, þú hefur þá látið gera við hana fyrir sunnan?“
„Nei nei,“ segir Pétur og opnar munninn, og þá sé ég að hann er
ennþá með gömlu fyllinguna mína í tönninni.
Svo er nú það, eins og þar stendur. Allt fer einhvernveginn þó sumir
efist um það.