Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 92
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
92 TMM 2008 · 2
Síðan hafa margir harmað fátækt íslensks bókamarkaðar, nú síðast benti
Hjálmar Sveinsson á það með nokkrum þunga að tímamótaverk Elíasar Marar
séu ekki til á almennum markaði. Helst hafa gömul verk verið til í ritsöfnum
og heildarútgáfum sem ekki eru beint til að grípa með sér í sumarfríið. Af því
tagi er hið stórglæsilega ritsafn Steinars Sigurjónssonar sem Ormstunga gaf út
í vor í 20 bindum. En í fyrra hratt Bjartur af stað útgáfu klassískra skáldsagna
í kiljum með Aðventu og Svartfugli Gunnars Gunnarssonar, og fylgir þeim eftir
í ár með Pilti og stúlku Jóns Thoroddsen. Reynslan af útgáfunni er að sögn
Guðrúnar Vilmundardóttur afar góð og eru Bjartsliðar fullir af eldmóði.
Og í ár blæs nýja Forlagið til sóknar á þessum vettvangi, hefur þegar gefið út
Bréf til Láru og Steinarnir tala eftir Þórberg Þórðarson í kilju og boðar margar
í viðbót, meðal annars Samastað í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur sem
kemur við sögu annars staðar í heftinu. Helst vill útgefandinn, Jóhann Páll
Valdimarsson, gefa út tólf bækur í þessari nýju ritröð á ári, samkvæmt viðtali
við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í 24 stundum (19.3. 2008): „Mér finnst ég ekki
geta svarað af neinni sannfæringu að ekki sé útgáfugrundvöllur fyrir íslenskri
klassík nema gera alvöru tilraun.“
Ljóst er að aðeins með því að sýna áhuga getum við vænst framhalds af þess-
um tilraunum, og er óskandi að almenningur kaupi þessar fínu kiljur þannig
að ekki þurfi að selja þær á túkall á bókamörkuðum næstu árin. Góðar bækur
eiga að rata upp í hillur hjá fólki en ekki daga uppi á lagerum. Þar er líka svo
dýrt að geyma þær að útgefendur freistast til að gefa þær á bókamörkuðum – þá
eru þær ekki lengur til í búðum og tuðið byrjar upp á nýtt!
Til nýrrar klassíkur teljast minningabækur Guðbergs Bergssonar, Faðir og
móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar. Þær eru
komnar út í einni stórri kilju undir titlinum Bernskan (Forlagið). Og í stórbók
Einars Kárasonar eru endurprentaðar fimm skáldsögur hans, þar á meðal sú
fyrsta, Þetta eru asnar, Guðjón, hlutar úr fleiri bókum, smásögur og ljóð (MM),
prýðileg kynning á vinsælum höfundi. Halldór Guðmundsson valdi efnið og
skrifar inngang. Bókinni fylgir kvikmyndin Djöflaeyjan sem Friðrik Þór Frið-
riksson gerði eftir braggasögum Einars.
Úr því ég minntist á 13 ára gamla grein Péturs Gunnarssonar er gaman að
nefna að ýmislegt hefur verið gert af því sem hann talar um þar. Til dæmis
hefur „hin langa æfi Matthíasar [Jochumssonar] með stórbrotnum átökum í
sál og sinni“ verið skráð, einnig ævi Stephans G. Stephanssonar og Árna
Magnússonar; og Vísnabók Guðbrands Þorlákssonar var endurútgefin árið
2000. Segiði svo að það borgi sig ekki að tuða svolítið.
Önnur tilhneiging er útgáfa ljóðabóka, bæði nýrra og endurútgefinna. Hún
er reyndar ekki ný, ljóð hafa lengi átt sinn útgáfutíma á vorin.
Í tilefni af sjötugsafmæli Þorsteins frá Hamri gaf Forlagið út aftur bókina
Ljóð og myndir í samvinnu við Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar. Í bókinni
eru fjórtán ljóð sem Tryggvi valdi úr fyrstu átta bókum Þorsteins til að mynd-
lýsa. Ljóðin eru afar vel valin og myndirnar yndislegar.
Vaka-Helgafell sendi í vor frá sér kvæðasafn Þórarins Eldjárns með öllum