Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 138
B ó k m e n n t i r
138 TMM 2008 · 2
ir; það er að segja eins og akademískur rannsóknarmaður klæddur hvítum
sloppi og sótthreinsuðum plasthönskum.
1. Skáldið afmarkar viðfangsefnið: Dauði.
2. Skáldið kemur fram með kenningu í byrjun (til að skilgreina dauðann
verðum við að skilgreina lífið. Bls. 8).
3. Skáldið rannsakar þvínæst viðfangsefnið „fræðilega“ (með málfari sem
dregur úr myndrænu flæði og beitir í staðinn fræðilegum hugtökum aka-
demíkers; loftbarkar og æðaslöngur og þvagleggir – bls. 88) frá ýmsum sjónar-
hornum. (Til dæmis: Dauðinn er írónískur miskunnarlaus listamaður sem er
jafnvel fyrirmynd skáldsins sjálfs, sbr. Olía á striga (19). Sumt líf er verra en
dauði og gerir hann eftirsóknarverðan, sbr. Ósköp er hann seinn, blessaður (22)
og Dánarfregnir og jarðarfarir (72). Stundum eykur hugsun um dauðann til-
finninguna fyrir lífinu, sbr. Kíkt í kaffi (74). Stundum gerir óhófleg sorg for-
eldra yfir látnu barni að lifandi systkini gleymist, og dauðinn líkt og smitast
yfir á það þótt það lifi, sbr. Rúmrusk (80), og svo mætti lengi telja.)
4. Skáldið kemst að lokum að niðurstöðu. (En það sem útilokar orð, merk
ingu og myndir teiknaðar með stafrófinu eru líflaus svört augu þeirra sem lesa
yfir öxlina á mér bls. 93.) Niðurstaðan í þessu tilfelli er að dauðinn gerir orð og
fyrirbæri merkingarlaus.
Með þessu móti má vel sjá grilla í ritgerð bakvið strúktúr bókarinnar. Vís-
indaskáldið Sindri er því skrefi á undan þeim sem hyggst sundurkryfja verkið
og spurning hvort framsækinn akademíker mundi ekki yrkja um það frekar en
að greina það í tætlur. Ef hann mundi greina það endaði hann á að greina sína
eigin greiningaraðferð og ætti þannig á hættu að tæta í sundur eigin hugsun og
enda sem hugsanalaus frummaður.
* * *
Jónas Þorbjarnarson (f. 1960) sem stundar líka hið akademískt uppáklædda
ljóð gengur svo langt að nota ljóðið til að búa til heimspekilegt kerfi sem má
greina ef maður skoðar bækur hans sem heild (sjá TMM.1.06). Hann hefur
þannig fært þá grein akademískrar hugsunar sem er hvað næst trúarlegum
skáldskap, það er að segja tilvistarheimspeki, alveg inn í ljóðið, og miðlar með-
vitað sínu afbrigði af henni. Báðir stunda þeir Jónas og Sindri það að nota
akademíska umgjörð til að greina hlutina þar til þeir komast að niðurstöðu
sem þó er oft allt annað en vísindaleg. Þannig geta þeir talað við fólk sem á erf-
itt með að lesa texta nema hann hafi greinandi yfirbragð, en sýna um leið að
ferð akademískrar hugsunar, sé henni fylgt á leiðarenda, lýkur oft í fáránleika.
Þannig má gera akademíska hugsun ljóðræna með því að fara með hana nógu
langt og afhjúpa hana (bls. 88–9):
Frágangur
Tæki og tól eru fjarlægð frá rúminu
en loftbarkar og æðaslöngur og þvagleggir
sitja óhreyfðir í hinum látna