Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Blaðsíða 50
50 TMM 2008 · 2
Stefán Sigurkarlsson
Minningar úr Hólmanesi
(Brot)
Hólmanesbær stendur á hæðóttu nesi við Jökulflóa sunnanverðan.
Þaðan sér til blárra fjalla í fjarska og eins yfir hinar grænu eyjar flóans
sem eru svo margar að menn hafa enga tölu á þeim. Staður þessi rekur
upphaf sitt til þeirra tíma þegar danskir kaupmenn og hálf-danskir
embættismenn réðu lögum og lofum á svæðinu. Dönsk áhrif á þessa
litlu byggð urðu því ekki lítil, og enn þann dag í dag er bæjarbúum núið
því um nasir að þeir séu svo danskir í sér að þeir tali dönsku á sunnu-
dögum.
Snemma á sjöunda áratugnum, meðan Hólmanesbyggð var nánast
enn í þorpsflíkunum, fluttist ég þangað með mínu fólki til þess að taka
við apótekinu þar. Það var á þeim dögum þegar nýr maður í þorpi varð
af sjálfu sér eini maðurinn í bænum og þar með sá sem allir þorpsbúar
þurftu að skoða, og það sem fyrst. Þetta fékk ég fljótt að reyna, því á
slaginu níu að morgni fyrsta starfsdags míns í apótekinu vindur sér inn
í búðina hnellinn maður, nokkuð við aldur. Hann var svartklæddur eins
og Jesúíti og hafði svartan hatt á höfði. Þetta reyndist vera sjálfur sókn-
arprestur staðarins, séra Sigurður Leví Pétursson og bauð mig velkom-
inn í plássið. Við tókum tal saman, og að lokum spurði ég hann um
eitthvert lítilræði þar á staðnum. Hann kvaðst lítið um það vita, en snýr
sér að strák sem staddur var í búðinni, klappar honum á kollinn og
segir: „En hann veit það strákskrattinn.“ Ég neita því ekki að mér
hnykkti ögn við að heyra af munni prests svo hispurslaust gæluyrði, og
það í viðurvist drengs sem sjálfsagt átti eftir að verða fermingarbarn
hans. Seinna komst ég að því að prestur þessi var ekki mjög teprulegur
í tali, og átti meira að segja til að vera óhóflega orðljótur, kæmist hann í
uppnám eða væri við skál, sem full-sjaldan henti, að honum fannst, og
kenndi um pyngju sinni. En sóknarbörnin, sem og húsbóndi hans á
himnum, fyrirgáfu honum fúslega þessa bresti vegna þess að þau vissu
að undir svörtu vestinu sló hjarta úr gulli, enda var séra Sigurður sagður