Orð og tunga - 01.06.2016, Blaðsíða 19
Þorsteinn G. Indriðason: Á mörkum afleiðslu og samsetningar? 9
c. -lægur → land-lægur, so. liggja með i-hljóðvarpi af 3.
kennimynd (lágum)
d. -sýnn → ein-sýnn, e.t.v. af so. sýna eða af nafnorðinu
sýn
e. -rækinn → skyldu-rækinn, af so. rækja
f. -þættur → marg-þættur, af no. þáttur með i-hljóðvarpi
g. -sær → gegn-sær, af so. sjá með i-hljóðvarpi
h. -róma → ein-róma, af so. róma eða nafnorðinu rómur
2.3 Samsetning
Höskuldur Þráinsson (1995:133) skilgreinir samsett orð þannig: „Orð
eru nefnd SAMSETT ef þau eru gerð úr tveimur eða fleiri orðum
(hafa fleiri en eina rót)“ og Guðrún Kvaran (2005:10) er á svipuðum
slóð um, nefnilega að samsett orð séu „mynduð úr að minnsta kosti
tveimur rótum“. Samsetning er virkasta orðmyndunin í íslensku og
nokkrar tegundir eru til af henni.
Fyrst skal telja stofnsamsetningu þar sem tveir stofnar eru settir
sam an, sbr. hest-hús.
Í öðru lagi eru til eignarfallssamsetningar þar sem fyrri liðurinn er í
eignarfalli, óháð því hvaða fall seinni liðurinn hefur. Eignarfallsliður-
inn getur þá verið í eintölu, sbr. lands-lög, eða í fleirtölu, sbr. orða-bók.
Þessi samsetningartegund er athyglisverð vegna þess að þar kemur
fyrir beygður liður inni í samsettu orði en það hefur verið talið frekar
óvenjulegt í málvísindalegu tilliti (sjá t.d. Perlmutter 1988, Booij 1993,
1994, 1996 og Þorstein G. Indriðason 2014). Samsetning af þessu tagi
er mjög virk í íslensku, samanborið við t.d. nágrannamálið færeysku.
Þetta gæti tengst því að notkun eignarfallsins er enn virk í íslensku
og eignarfallið hefur þar af leiðandi skýrt hlutverk.14 Eignarfallið er
aftur á móti horfið að mestu úr færeysku talmáli en finna má eign ar-
fallsmyndir í ritmálinu (sjá Höskuld Þráinsson o.fl. 2004:248 og Þor-
stein G. Indriðason 2011:271).
Í þriðja lagi eru tengihljóðssamsetningar. Þar koma fyrir einingarnar
a, u, i milli stofnanna en þessar einingar eiga formlega ekkert skylt við
beygingarendingar, a.m.k. samtímalega séð. Þetta eru samsetningar
eins og ráð-u-nautur, tóm-a-hljóð, eld-i-viður, rusl-a-fata og skell-i-hlát-
ur. Tengihljóðið getur líka verið -s sem er reyndar samhljóma eign-
ar fallsendingunni -s en samtímalega á hún að öðru leyti ekkert skylt
14 Hér bendir ritrýnir á að notkun eignarfallsins sé virk í fl eiri málum án þess að þar
séu eignarfallssamsetningar til staðar.
tunga_18.indb 9 11.3.2016 14:41:08