Orð og tunga - 01.06.2016, Blaðsíða 20
10 Orð og tunga
við hana. Dæmi um slíkar samsetningar eru leikfimi-s-hús og hræsni-
s-fullur.
Í fjórða lagi er svo vert að minnast á svonefndar þágufallssamsetn-
ingar (sjá Kristínu Bjarnadóttur 2000). Þágufallssamsetningar eru tak-
markaður hópur samsetninga þar sem fyrri liðurinn er í þágufalli en
seinni liðurinn getur verið lýsingarháttur þátíðar, sbr. fánum-prýddur,
gulli-blandaður og hugsjónum-borinn, lýsingarorð, sbr. sjálfum-glaður og
ljónum-líkur, sögn, sbr. fótum-troða, tryggðum-binda og gulli-mála, eða
nafn orð, sbr. sjálfum-gleði og hugum-stærð. Þessar samsetningar líkjast
að sumu leyti svonefndum innlimunarferlum (e. incorporation). Í fán-
um-prýddur er hreyfingin frá sögn (sem reyndar er lýsingarháttur) og
andlagi yfir í andlag og sögn, sbr. prýddur fánum → fánum-prýddur.
Í fimmta og síðasta lagi má svo nefna setningarlegar samsetningar
(e. phrasal compounds) sem eru byggðar upp af fyrri lið sem er setn ing-
arliður eða jafnvel heil setning og seinni lið sem er venjulegt orð (sjá
Kristínu Bjarnadóttur 2005 og Þorstein G. Indriðason 2012), sbr. dæmi
eins og Tryggvi Þór spilaði út [[bannað-að-gera-grín-að-fötluðum]-spilinu]
(no.) þar sem greina má setningarstrúktúrinn í lýsingarorðslið með
nafnháttarsetningu. Setningarlegar samsetningar eru nokkuð óvenju-
legar því að oftast er gert ráð fyrir að orðasafn og setningahluti séu
aðskildir þættir málfræðinnar og að reglur um samsetningu eigi
heima í orða safni og geti þar af leiðandi ekki náð í setningarliði eða
heilar setningar úr setningahluta (sjá nánari útlistun á þessu fyrirbæri
hjá t.d. Wiese 1996, Scalise og Guevara 2005 og Sato 2010).
Segja má að algengustu gerðir samsetninga séu nafnorðs sam-
setn ing ar og lýsingarorðssamsetningar. Hér verður einnig minnst á
sagna samsetningar en dæmi um þá tegund eru frekar fá.15 Í nafn orðs-
sam setningum er seinni liðurinn nafnorð og ákvarðar bæði orðflokk
og beygingu samsetningarinnar. Fyrri liðurinn getur verið nafnorð,
lýs ing ar orð, sögn, fornafn, atviksorð, töluorð eða forsetning, sbr. (9):
(9) hesta(no.)-maður, háa(lo.)-loft, sendi(so.)-bréf, sér(fn.)-
viska, heim(ao.)-sókn, þrí(to.)-fótur, á(fs.)-veita
Í lýsingarorðssamsetningum er seinni liðurinn lýsingarorð en fyrri
liðurinn getur verið nafnorð, lýsingarorð, sögn, fornafn, atviksorð,
töluorð og forsetning þótt ekki séu þessar tegundir allar jafn algengar:
15 Þessi heiti eru notuð hér vegna þess að þessar samsetningar enda á nafnorði,
lýsingarorði eða sögn.
tunga_18.indb 10 11.3.2016 14:41:08