Saga - 2009, Page 102
Saga XLVII:1 (2009), bls. 102–121.
aðalheiður guðmundsdóttir
Siðferði gleðinnar
Um danskvæði og dansmenningu
fyrri alda
Við rannsóknir á danssögu Íslendinga hefur lengi verið stuðst við sömu
heimildirnar, svo sem Sturlunga sögu, Íslandslýsingu odds einarssonar,
Crymogæu Arngríms lærða, bréf og álitsgerðir einstakra biskupa, presta og
sýslumanna, auk ritgerða frá síðari öldum; allt eru þetta heimildir sem
greina frá dansleikum á einn eða annan hátt og allar endurspegla þær
viðhorf yfirvalda og/eða lærðra manna til skemmtananna. Í þessari grein
verður sjónum hins vegar beint að þeim kvæðum sem kveðin voru undir
dansi og þannig leitast við að varpa ljósi á viðhorf þeirra sem tóku þátt í
dansleikunum. Þar sem mörg kvæðanna greina frá danssamkomunum
sjálfum, hinni svokölluðu gleði og því sem þar fór fram, verða þau skoðuð
í samhengi við hinar hefðbundnari heimildir og þá meðal annars í þeim til-
gangi að meta vitnisburð þeirra.
Í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir verða danskvæði fyrri alda
skoðuð í samhengi við aðrar og hingað til þekktari heimildir, sem
gefa oftar en ekki neikvæða mynd af dansleikum og skemmt-
anasiðum Íslendinga. Í þeim tilgangi að gefa sem skýrasta mynd af
vitnisburði þessara kvæða verða fáein þeirra skoðuð með áherslu
á fimm atriði: gróteskar lýsingar af dansfólkinu, kvæðakunnáttu
þess, áfengisnotkun, samdrátt karla og kvenna og að lokum laus-
læti, en notkun áfengis og lauslæti samkomugesta er einmitt eitt
það helsta sem yfirvöld kvörtuðu undan og olli því að slæmt orð
fór af dansleikunum. Í upphafi er þó rétt að gera grein fyrir tveim-
ur mikilvægum þáttum í danssögu Íslendinga, annars vegar tíma-
ramma dansleikanna, hvenær þeir hófust og hvenær þeim tók að
hnigna, og hins vegar umkvörtunum yfirvaldsins og að hverju
andstaðan beindist. Hvorugur þessara þátta verður brotinn til
mergjar enda hefur ítarlega verið fjallað um hvorn tveggja á öðrum
vettvangi; örstutt yfirlit gæti hins vegar auðveldað okkur að setja
danskvæðin í samhengi við þann jarðveg sem þau spruttu úr og
lifðu í.
Saga vor 2009 UMBROT NOTA-1:Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2009 15:52 Page 102