Breiðfirðingur - 01.04.1957, Page 46
Skrímslið í Stykkishólmi
(Frásaga)
Einar hefur maður heitið. Hann bjó í Ási við Stykkis-
hólm. Ás er lítið býli, þó má hafa þar kú og nokkrar
kindur.
Einari var sýnt um búskap, að hann taldi. Á hverju
hausti gerði hann yfirlit í huganum yfir búskapinn á liðnu
ári. Fann hann þá margt, sem úrhendis hafði farið. Alla
slíka ágalla kvaðst hann mundi betrum bæta í framtíðinni.
Um ráðgerðir hans var þetta kveðið:
Einar nefna ýtar mann,
í Ási býr hinn hrausti.
Hann ætlar að hafa það allt saman
öðru vísi að hausti.
Þegar þeir ægilegu viðburðir gerðust, sem hér verður
nokkuð sagt frá, átti Einar hrút einn mórauðan. Hrúturinn
var heimalningur og gekk í túninu. Gersemi var hann að
vænleik og nú veturgamall. Einari þótti vænt um hrútinn.
Verzlanir í Stykkishólmi höfðu þann viðskiptahátt við
bændur á verzlunarsvæðinu að kaupa af þeim fé á fæti
og reka í Stykkishólm til slátrunar. Fénu var slátrað á
bersvæði, nefnt blóðvöllur, því að ekki voru sláturhús fyrir
hendi á staðnum. Vinnan var kalsöm í vondum veðrum.
Brennivínsveitingar voru þá helzti hitagjafinn, ef menn
væru sér ekki einhlítir um hita.