Skírnir - 01.09.2012, Page 35
SKÍRNIR NJÁLSSAGA OG ÍSLENDINGASAGA ... 295
Áfram Barði: „Gegnir hér sama máli eins og um dráp Gissurarsona
í Flugumýrarbrennu og Njálssona í Njálsbrennu. Tveir bræðurnir
farast í sjálfri brennunni. Sá þriðji er höggvinn niður fyrir dyrum úti,
er hann freistar undankomu með sverð í hendi“ (Barði Guðmunds-
son 1958: 64).
Um svipað leyti og ég var að velta fyrir mér þessum athugunum
Barða rakst ég á grein á Netinu, skrifaða á ensku af John Megaard
sem mun vera norskur norrænufræðingur; hún heitir einfaldlega:
„Was Njáls Saga Written by Sturla Þorðarson?"
Hann tekur eftir sama orðalagi á lykilstöðum í báðum brennum,
t.d. eru húsmæðurnar á Flugumýri og Bergþórshvoli látnar segja:
„Að eitt skyldi yfir þær báðar ganga“ (Flugumýrarbrenna), „Að eitt
skyldi ganga yfir okkur bæði“ (Njálsbrenna). Og á sama stað í
báðum brennulýsingum stendur: „Tóku þá húsin mjög að loga“
(Flugumýrarbrenna), „Nú taka öll húsin að loga“ (Njálsbrenna).
I þessum tveimur brennum má semsé sjá hliðstæður á milli orða
og örlaga húsfreyjunnar á bænum sem er sóttur með eldi, og sömu-
leiðis sona húsráðandans. John Megaard bendir einnig á hliðstæðu
sem varðar tengdadóttur húsráðenda: Bæði Ingibjörg Sturludóttir á
Flugumýri og Þórhalla Ásgrímsdóttir á Bergþórshvoli eru komnar
í námunda við dyragætt eftir að eldur hefur læst sig í húsin, og þá
er kallað til þeirra að utan og þeim boðin útganga. Báðar hika, vilja
helst ekki skiljast við eiginmenn sína. Ingibjörg Sturludóttir Þórðar-
sonar, höfundar frásagnarinnar um Flugumýrarbrennu, var þá
nýgift Halli Gissurarsyni, en Þórhalla var kona Helga Njálssonar
og dóttir Ásgríms Elliðagrímssonar, og ef við höldum okkur við
hliðstæður þá hefði höfundurinn Sturla varla fúlsað við því að vera
í sama hlutverki og Ásgrímur sem var mikill lögspekingur, friðar-
sinni, hraustmenni og hetja, og jafnan gegnheill stuðningsmaður
góðra manna, Gunnars, Njáls og loks Kára.
Það er ástæðulaust að efast um að grein norska fræðimannsins
byggi á sjálfstæðri athugun hans, en fyrri punktarnir tveir sem hann
nefnir höfðu reyndar áður komið fram í skrifum Barða Guðmunds-
sonar. Ein greinin í bók hans heitir „Nú taka öll húsin að loga“ og
þar finnur hann fjölmargar samsvaranir á milli frásagna í Njálu og
Sturlungu (ein athyglisverð í viðbót er að í stað þess að fara út úr eld-