Skírnir - 01.09.2012, Page 36
296
EINAR KÁRASON
SKÍRNIR
inum þurfa húsfreyjur báðar að huga að sveinbarni). Og Barði telur
líkingarnar allar stafa af því að Njáluhöfundur hafi verið undir svo
miklum áhrifum síðarnefndu bókarinnar, sem var reyndar ekki
steypt saman í heild fyrr en í byrjun 14. aldar. En semsé, bæði að
Flugumýri og á Bergþórshvoli er ætlun árásarmanna að fella fjóra
menn (Islendingasaga: Gissur og syni hans þrjá — Njála: Kára og
Njálssyni þrjá), en einn fjórmenninganna sleppur og þá hefst nýr
þáttur — hefnd þess sem komst undan.
Það var á þessu augnabliki sem hugmynd kviknaði hjá mér. Eg
dró út úr hillu Islendingasögu Sturlu sem sjálfstætt rit; útgáfu frá
1974 sem Finnbogi Guðmundsson annaðist fyrir Menningarsjóð og
var reyndar byggð á Sturlunguútgáfunni frá 1946 sem Jón Jóhann-
esson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn ritstýrðu. Sjálfum
er mér tamast að handleika Sturlungu í heild, ekki síst útgáfu Svarts
á hvítu frá 1988 í ritstjórn Örnólfs Thorssonar og fleiri, þar sem
henni er raðað upp á sama hátt og hún er varðveitt í handritum, en
samsteypan er talin gerð af Þórði Narfasyni á Skarði árið 1308.
Þannig, sundurklippt og fleyguð, virkar Islendingasaga sem heldur
losaralegt eða jafnvel hálfkarað verk, en sé hún skoðuð sem sjálfstæð
bók rann upp fyrir mér að henni megi skipta í þrjá efnishluta. Rétt
eins og Njálu.
Og það sem meira er, þá mætti endursegja fyrsta hluta Islend-
ingasögu á þennan hátt: Eftir kynningu á persónum, sviðsmynd og
helstu aðstæðum fer frásögnin smám saman að hverfast um eina
aðalpersónu. Sú söguhetja er ungur karlmaður sem ber af öðrum
fyrir fríðleik og líkamlegt atgervi. Eftir sigursæla för til útlanda snýr
hann heim og verður bæði dáður og öfundaður. Hetjan gerir sig
seka um ofmetnað eða ofdirfsku, hlýðir ekki ráðum eldri og vitrari
manna, færist of mikið í fang og eignast of marga volduga óvini sem
loks taka höndum saman og ráðast að söguhetjunni og fella í bar-
daga.
Kannast menn við rulluna? Svona er nærtækt að lýsa jafnt fyrsta
hluta Brennunjálssögu og Gunnari, sem og fyrsta hluta Islendinga-
sögu og Sturlu Sighvatssyni.
Annar hluti beggja bóka snýst svo um megindramað, aðför að ís-
lensku stórbýli og brennu sem fylgir (í báðum stöðum eru ellefu